Skíðar ekki meira á þessari vertíð

Fjallaleiðsögumaðurinn hjá Artic Heli Skiing mun líkast til ekki skíða …
Fjallaleiðsögumaðurinn hjá Artic Heli Skiing mun líkast til ekki skíða meira á þessari vertíð. Hann er með slitin liðbönd í hné. Mynd úr safni.

„Hann hef­ur það nokkuð gott. Hann er með slit­in liðbönd í hné, skrámaður og svo­lítið lemstraður líka,“ seg­ir Jök­ull Berg­mann, sem rek­ur fyr­ir­tækið Artic Hele Skiing sem ann­ast þyrlu­skíðaferðir hér á landi og á Græn­landi, um ástand fjalla­leiðsögu­manns frá fyr­ir­tæk­inu sem lenti í snjóflóðinu við Sauðanes norðan Dal­vík­ur í gær­kvöldi og ligg­ur nú á Fjórðungs­sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri.

Hann var þar með fjög­urra manna hóp banda­rískra skíðamanna þegar flóðið féll á hann. Að sögn Jök­uls grófst far­ar­stjór­inn ekki í flóðið og vel gekk að ná hon­um úr því.

-Varstu á þyrlunni þarna rétt hjá?

„Nei ég var á ann­arri þyrlu í ná­grenn­inu. Hann var sjálf­ur með sína þyrlu að vinna á þessu svæði.“

Kom­inn á spít­al­ana 23 mín­út­um síðar

-En hann hef­ur ekki legið lengi í flóðinu?

„Nei það má segja að þetta hafi gengið eft­ir áætl­un. Við erum með mjög ákveðna verk­ferla sem við för­um eft­ir sem eru í sam­ráði og sam­vinnu við FSA [Fjórðungs­sjúkra­húsið á Ak­ur­eyri] og 112. Um leið og eitt­hvað svona ger­ist þá fara þeir verk­ferl­ar í gang og frá því að flóðið fell­ur og þangað til hann er kom­inn inn á borð á slysa­deild­inni á Ak­ur­eyri liðu akkúrat 23 mín­út­ur. Það má eig­in­lega segja að þetta hafi verið staðfest­ing á því að það sem við erum að æfa fyr­ir alltaf er að virka og mjög ánægju­legt að allt gekk mjög vel fyr­ir sig. Sam­skipti við 112, sjúkra­húsið og flugt­urn­inn gekk allt eins og í sögu.“

-Hvernig var með ferðamenn­ina sem voru með hon­um?

„Þeir voru að bíða eft­ir að hann kannaði aðstæður í brekk­unni. Þeir voru á ör­ugg­um stað og fundu ekk­ert fyr­ir flóðinu nema að horfa upp á það. Leiðsögumaður­inn flóðatékkaði staðinn sem hann skíðaði á. Brekk­an sem hann var að skíða í er í raun og veru ekki snjóflóðabrekk­an. Það sem að ger­ist er að það fer af stað snjóflóð tölu­vert langt fyr­ir ofan hann. Lík­lega þrjú til fjög­ur hundruð metr­um og til hliðar. Það var hrein­lega bara nógu stórt flóð til þess að það fór inn í þá leið sem hann var að skíða og greip hann með.“

Frá­leitt að þyrla hafi komið flóðinu af stað

-Hvað held­ur þú að hafi komið því af stað?

„Það hef­ur klár­lega ekki verið þyrl­an. Það er mik­il mýta að þyrl­ur valdi snjóflóðum eða hávaði al­mennt. Það er hins­veg­ar í raun og veru mjög erfitt að segja til um það hvort það hafi verið hrein­lega svona veikt lag í snjón­um al­veg þarna niður sem tengdi upp þar sem hann fór á stað. Sem að þá leiðsögumaður­inn hef­ur sett af stað. Eða hvort hrein­lega hafi farið af stað nátt­úru­legt flóð þarna efst í brekk­unni. Það er í raun og veru ekki hægt að segja til um það al­veg 100%. Það eru búin að vera að falla nátt­úru­leg snjóflóð á svæðinu und­an­farna daga. Það er mjög erfitt að segja til um það ná­kvæm­lega.“

 -En er eitt­hvað sem þú tel­ur að þurfi að end­ur­skoða í ykk­ar ferl­um eða eru þeir að virka eins og skyldi?

„Það má segja sem svo að all­ir björg­un­ar­ferl­ar hafi virkað eins og skyldi og þurfi ekki mik­ill­ar end­ur­skoðunar við. En við lær­um af öll­um at­vik­um, sama hvort þau eru slæm eða góð og för­um yfir alla verk­ferla og sjá­um hvort það sé eitt­hvað sem að við get­um gert til að bæta þá.“

-Það hef­ur gengið vel að koma ferðafólk­inu af staðnum?

„Já þeir voru komn­ir upp í bíl þarna fyr­ir neðan ör­skömmu seinna og komn­ir af stað heim í okk­ar bækistöð þar sem þeir fóru í kvöld­mat.“

„Eiga við snjóflóð alla daga“

-Þeir hafa ekki fengið sjokk?

„Nei það var allt í góðu lagi með það. Snjóflóð eru eitt­hvað sem við sjá­um mikið af okk­ar starfi og á ferðalög­um á fjöll­um að vetr­ar­lagi. Fyr­ir al­menn­ing hljóm­ar þetta eins og ein­hver hryll­ing­ur en þetta er nú bara staðreynd sem að fylg­ir því að snjór sest í fjall­lendi - að það verða snjóflóð. Það má eig­in­lega segja að það er á hverj­um tíma­punkti yfir vet­ur­inn nán­ast alltaf viðvar­andi snjóflóðahætta ein­hversstaðar á fjöll­um. Snjóflóð eru part­ur af því sem að við þurf­um að eiga við alla daga.“

-Er mikið að gera hjá ykk­ur á þess­um tíma?

„Já þetta er okk­ar vertíð. Það er að segja mars og fram í júní. Við erum að skíða hérna á Trölla­skaga al­veg fram í síðustu vik­una í júní.“

-Nú ert þú einn reynd­asti fjalla­leiðsögumaður lands­ins. Það hef­ur vænt­an­lega nýst vel í þessu til­viki?

„Já ég er eini alþjóðlega fag­lærði fjalla­leiðsögumaður lands­ins. En það má al­veg minn­ast á að leiðsögumaður­inn sem lenti í snjóflóðinu er reynslu­mesti þyrlu­skíðaleiðsögumaður lands­ins og hann starfar við þetta all­an vet­ur­inn í Kan­ada áður en hann kem­ur hingað til Íslands að vinna.“

-Hvenær er talið að hann geti farið aft­ur á skíði - það verður varla í vet­ur?

„Nei ég held að það sé nokkuð ljóst að það verður ekki í vor. En hann á að ná sér al­veg á fullu og verður kom­inn á skíðin fyr­ir næstu vertíð al­veg klár­lega.“

-Hvernig leysið þið það nú?

„Við þurf­um að kalla inn leiðsögu­menn utan frá og erum að græja það.“

Frétt mbl: Minna slasaður en talið var

Frétt mbl:Skíðamaður lenti í snjóflóðinu

Frétt mbl: Snjóflóð féll norðan Dal­vík­ur

Jökull Bergmann, fjallaleiðsögumaður hjá Artic Heli Skiing.
Jök­ull Berg­mann, fjalla­leiðsögumaður hjá Artic Heli Skiing. mbl.is
Artic Heli Skiing er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þyrluskíðaferðamennsku …
Artic Heli Skiing er fyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í þyrlu­skíðaferðamennsku á Trölla­skaga og á Græn­landi. Ljós­mynd/​Snorri G. Stein­gríms­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert