Áverkar og fjöldi vitna hafa áhrif

Í langflestum þeim málum þar sem handtaka fór fram var …
Í langflestum þeim málum þar sem handtaka fór fram var gerandi handtekinn samdægurs eða í 51 máli. AFP

Hvað þarf til að nauðgunarmáli sé vísað frá lögreglu til ríkissaksóknara? Meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn er að gerð áverka, mótspyrna þolanda við verknaði og fjöldi vitna hefur sitt að segja.

Í samantekt á niðurstöðum nýrrar rannsóknar á einkennum og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009 er farið í gegnum marga þætti sem tekið er tillit til við rannsókn. 

Landsbyggðin vísar málum frekar áfram

Meðal þess sem kemur fram er að marktækur munur er t.d. á afgreiðslu mála eftir því hvort þau voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða til lögregluembætta á landsbyggðinni. Líklegra er að málum utan að landi sé vísað til ríkissaksóknara. Hér má ætla að verklag lögregluembætta á landsbyggðinni, þegar kemur að ákvörðun um að hætta rannsókn eða vísa máli til ríkissaksóknara, sé með öðrum hætti en lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að mati rannsakenda.

Nauðgunarmálin sem komu til lögreglunnar á rannsóknartímabilinu voru flest framin að næturlagi og undir morgun um helgar. Þá voru brotin mjög tengd áfengisneyslu.

Brotum sem framin voru á milli kl. 18 og 3 var marktækt oftar vísað til ríkissaksóknara en brotum sem framin voru milli kl. 3 og 18. Höfundar samantektarinnar segja skýringuna sennilega þá að eftir því sem líður á nóttina eru brotaþolar, sakborningar og vitni undir meiri áhrifum áfengis og minni þeirra því gloppóttara. Frásagnir þeirra af atvikum í lögregluskýrslu, verða af þessum ástæðum oft óskýrari og því erfiðara fyrir lögreglu að henda reiður á hvað nákvæmlega átti sér stað.

Málum útlendinga oftar vísað áfram

Þá kom í ljós að marktækur munur er á afgreiðslu mála hjá lögreglu eftir því hvort sakborningar voru erlendir eða íslenskir. Málum þar sem útlendingar voru gerendur var marktækt oftar vísað til saksóknara. Þegar hópar sakborninga af erlendu þjóðerni annars vegar og Íslendinga hins vegar voru greindir nánar kom í ljós nokkur munum á hópunum hvað varðar verknaðaraðferðir, mótspyrnu brotaþola, fjölda gerenda í málum og aðdraganda að broti. Erlendir gerendur þekktu einnig brotaþola  sjaldnar en aðrir gerendur en slíkum málum er oftar vísað til saksóknara en öðrum.

Alls var hlutfall erlendra sakborninga 23% í kærumálum hjá lögreglu sem er nokkuð hátt hlutfall að mati rannsakenda.

Í rannsókninni kom einnig í ljós munur á afgreiðslu mála lögreglunnar eftir því hvort þolendur sögðust hafa streist á móti eða veitt líkamlega mótspyrnu. Slíkum málum er oftar vísað til saksóknara. Sömu sögu er að segja um mál þar sem áverkar eru sýnilegir.

Málin tilkynnt strax 

Þá skiptir máli, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, hvort að málin séu tilkynnt strax og hvort gerandinn sé handtekinn. Skýringin felst m.a. í því að eftir því sem styttra er liðið frá því að brot er framið, því auðveldara er að afla gagna, s.s. réttarlæknisfræðilegra og vitna.

Í langflestum þeim málum þar sem handtaka fór fram var gerandi handtekinn samdægurs eða í 51 máli.

Þá skiptir aldursmunur málsaðila máli. Mun meiri aldursmunur var á milli geranda og þolanda í þeim málum sem lögreglan vísaði til saksóknara til ákvörðunar um saksókn eða 8,1 ár að meðaltali. Hér kunna hugmyndir um aðstöðumun að liggja til grundvallar að mati rannsakenda.

Einnig skiptir fjöldi vitna máli. Því fleiri vitni - því líklegra er að lögreglan vísi málinu áfram til ríkissaksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert