Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra sagði á fundi með stjórn Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja í vikunni að hækkun virðisaukaskatts á gistingu væri vond hugmynd og að hún vildi beita sér fyrir því að hann kæmi ekki til framkvæmda.
Alþingi samþykkti í vetur að hækka skatt á hótelgistingu í 14%. Upphaflega var áformað að skatturinn yrði 25,5%. Samtök ferðaþjónustunnar mótmæltu skattahækkuninni harðlega. Eftir að Katrín varð fjármálaráðherra beitti hún sér fyrir því að skatturinn yrði 14% og var það samþykkt. Skatturinn á að koma til framkvæmda 1. september nk.
Magnús Bragason, hótelstjóri á Hótel Vestmannaeyjum, ræddi þessa skattlagningu við Katrínu á fundinum í Eyjum og lýsti áhrifum hans á rekstur þess fyrirtækis sem hann rekur, en sagt er frá þessu í frétt Eyjafrétta.
Magnús sagði í samtali við mbl.is, að Katrín hefði viðurkennt að þessi skattlagning væri vond hugmynd og að hún myndi, ef hún yrði þingmaður og ráðherra áfram eftir kosningar, beita sér fyrir því að hann kæmi ekki til framkvæmda.
„Við ræddum þetta talsvert. Ég spurði hana hvort hún væri tilbúin til að taka í höndina á mér upp á þetta. Hún sagði já og gerði það. Það voru margir sem urðu vitni að þessu,“ sagði Magnús í samtali við mbl.is.
Magnús og eiginkona hans eru að byggja við Hótel Vestmannaeyja. Magnús sagði að hann væri búinn að gera rekstraráætlanir og skatturinn hefði ótrúlega mikil áhrif. „Það er sláandi, þegar maður setur hærri skattinn inn í útreikningana, hvað hann hefur mikil áhrif. Ég tel ekki svigrúm til að hækka gistinguna mikið. Við Íslendingar erum með frekar hátt verð á gistingu og getum ekki verið mikið hærri en við erum í dag. Það er ekki hægt að velta þessum skatti út í verðlagið,“ sagði Magnús.
Magnús sagði að með þessari skattlagningu væri verið að bæta við einu þrepi til viðbótar í virðisaukaskattskerfið og þar með flækja kerfið. Hann sagðist hafa bent Katrínu á að hætt væri við að einhverjir reyndu að fara í kringum skattinn með því að hækka verð á morgunmat, sem ber 7% virðisaukaskatt, í stað þess að hækka verð á gistingu.
Framkvæmdir við stækkun Hótel Vestmannaeyja eru hafnar en áætlað er að þeim ljúki næsta haust, en þá verða 50 herbergi við hótelið.
Ekki hefur náðst í Katrínu Júlíusdóttir til að bera undir hana frétt Eyjafrétta.