Vinir eða kunningjar voru gerendur í 37,1% þeirra nauðgunarmála sem tilkynnt voru til lögreglu á árunum 2008 og 2009. Í rúmlega 15% tilvika þekktust brotaþoli og gerandi ekki og í tæplega 24% málanna höfðu þeir kynnst innan við 24 klukkustundum áður en hið kærða brot var framið. Í um 39% tilvika eða 74 málanna þekktust gerandi og brotaþoli því lítið eða ekkert áður en nauðgunin átti sér stað. Árásarnauðganir, þar sem gerandi réðist fyrirvaralaust á konu og nauðgaði henni, voru fáar á rannsóknartímabilinu sem tók til tveggja ára.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn á einkennum og meðferðum nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008-2009. Rannsóknin var unnin af Hildi Fjólu Antonsdóttur, mann- og kynjafræðingi, og Þorgbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur lögfræðingi við EDDU - öndvegissetur með styrk og stuðningi innanríkisráðuneytisins sem og styrk frá Norræna sakfræðiráðinu. Skoðuð voru 189 mál sem tilkynnt voru lögreglunni á tímabilinu og hver málalok þeirra urðu innan kerfisins.
Í nánast öllum málunum sem tilkynnt voru til lögreglunnar á þessu tveggja ára tímabili höfðu brotaþolar og gerendur þó verið í einhverjum samskiptum áður en brotið átti sér stað. Hefðu kynnin verið stutt var algengt að þau hefðu hafist á eða við skemmtistað. Samskipti þeirra hófust þó oftast inni á heimili eða í 38% tilvika og þá oftast í tengslum við skemmtanahald.
Fáar árásarnauðganir
Rannsóknin leiddi í ljós að í 6% málanna höfðu engin samskipti átt sér stað áður en nauðgunin var framin. Í þeim málum voru nokkur dæmi þess að óþekktur karlmaður réðist fyrirvaralaust á konu, dró hana afsíðis og nauðgaði henni. Svonefndar árásarnauðganir, þar sem ráðist var á konur án þess að nokkur samskipti hefðu átt sér stað, voru því fáar í gögnum lögreglunnar á því tímabili sem var til rannsóknar.
Heimili algengasti vettvangur nauðgana
Heimili eru algengasti vettvangur nauðgana á Íslandi. Nauðganirnar sem tilkynntar voru, voru langflestar framdar innandyra og oftast á heimili annars hvors aðilans. Mjög stór hluti nauðgana á sér stað eftir að áfengis hefur verið neytt. Fjórum stúlkum á aldrinum 15-17 ára var nauðgað er þær voru rænulausar. Af öllum þeim nauðgunarmálum sem lögregluembættum á Íslandi voru tilkynnt á árunum 2008 og 2009 sögðust 50 þolendur hafa verið rænulitlir eða rænulausir er brotið var gegn þeim. Þeir hafi af þeim sökum ekki getað spornað við verknaðinum.
Brotavettvangur var meðal þess sem rannsakendur skoðuðu sérstaklega. Í ljós kom að í 31% tilvika var nauðgunin framin inni á heimili gerandans en í 15% tilvika inni á heimili þolandans. 11% brotanna voru framin í bíl. Aðeins fjórar af þeim nauðgunum sem tilkynntar voru lögreglu á rannsóknartímabilinu voru í tengslum við útihátíðir.