Skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi

Siglufjörður
Siglufjörður mbl.is/Sigurður Bogi

Tvítugur piltur var í gær dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir manndráp af gáleysi. Hann var valdur að dauða ungrar stúlku og og líkamsmeiðslum tveggja annarra stúlkna á Siglufirði í nóvember 2011.

Pilturinn, sem var átján ára er slysið varð, var ákærður fyrir manndráp og líkamsmeiðingar af gáleysi, og umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudagskvöldið 16. nóvember 2011 ekið bifreið suður Snorragötu og Langeyrarveg á Siglufirði undir áhrifum fíkniefna (í þvagsýni sem tekið var úr piltinum fannst tetrahýdrókannabínólsýra), á yfir 50 kílómetra hraða og alltof hratt og án nægilegrar aðgæslu, miðað við það að hann var að aka framhjá skólabifreið, sem stöðvað hafði á Langeyrarvegi til að hleypa skólabörnum út úr bifreiðinni, með þeim afleiðingum að hann ekur bifreið sinni á þrjár stúlkur, sem voru að ganga yfir götuna fyrir aftan skólabifreiðina

Við ákeyrsluna hlaut ein stúlka það alvarlega áverka að hún lést nær samstundis,  önnur slasaðist mjög alvarlega og sú þriðja minna.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að pilturinn hafi átað að hafa ekið umrædda akstursleið og véfengdi ekki niðurstöðu matsgerðar um að fíkniefni hafi verið í þvagsýni hans.  Hann neitaði hins vegar neitað refsiverðri sök og m.a. staðhæft að hann hafi ekki fundið fyrir fíkniefnaáhrifum við aksturinn. 

Er það niðurstaða dómsins að pilturinn hafi ekki hagað akstri sínum í samræmi við þær skyldur sem kveðið er á um í varúðarreglum umferðarlaganna.  Það er og niðurstaða dómsins að hann hafi ekið of hratt og ekki sýnt þá varúð sem krefjast mátti af honum við lýstar aðstæður.  Verður í því samhengi ekki síst horft til þess að honum var fullkunnugt um að skólabifreiðin var kyrrstæð á austurhluta Langeyrarvegar þar sem ökumaður hennar var að hleypa út ungmennum sem verið höfðu í félagsstarfi í Ólafsfirði fyrr um kvöldið.  Samkvæmt frásögn hins ákærða hafði hann að auki séð til ungmenna vestan akbrautarinnar er hann nálgaðist skólabifreiðina rétt fyrir slysið. 

Er það mat dómsins að pilturinn hafi sýnt af sér sem ökumaður vítavert gáleysi. Eins og hér kom fram að framan staðhæfði ökumaðurinn að hann hafi ekki fundið fyrir áhrifum þess fíkniefnis sem fannst í því þvagsýni sem hann gaf við rannsókn lögreglu.  Af hálfu ákæruvalds hefur frásögninni, að hann hafi neytt efnisins í litlum mæli nokkru fyrir umferðarslysið, ekki verið hnekkt.  Að þessu virtu er ósannað að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn í læknisfræðilegum eða vísindalegum skilningi. Var hann sýknaður af því sakaratriði.

Pilturinn var einnig sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu dómsins að telja og gert að greiða fórnarlömbum slyssins og aðstandendum þeirra alls 4,8 milljónir króna í bætur. Eins þarf hann að greiða ¾ hluta sakarkostnaðar, sem í heild er 1.879.145 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert