„Ísland er ákveðið í því að útrýma elstu atvinnugrein í heimi. Mun það takast?“ Þetta segir í fyrirsögn í breska blaðinu Economist, en í greininni er sagt frá baráttu íslenskra stjórnvalda gegn vændi og klámi.
Í greininni er rifjað upp að á Íslandi hafi árið 2009 verið sett lög sem kveða á um að refsa skuli þeim sem kaupa vændi. Árið eftir hafi verið sett lög sem banna starfsemi nektarstaða. Ennfremur er sagt frá því að innanríkisráðherra hafi falið refsiréttarnefnd að vinna að frumvarpi til breytinga á hegningarlögum í því skyni að spyrna við klámvæðingu. Kanna á hvort varsla á klámi verði bönnuð, en einnig hvort hægt verði að gera lögreglu kleift að loka á dreifingu klámefnis.
„Ekkert land í heiminum hefur tekist að ná fullri stjórn á viðskiptum með kynlíf, hvorki með lagasetningu né refsingum. En um allan heim, sérstaklega í ríkum lýðræðisríkjum, fylgjast stjórnvöld með því hvort Íslandi tekst að gera þetta, með það í huga að fylgja fordæmi þeirra,“ segir í greininni.
Tekið fram að ekki sé búið að fjalla um þessa tillögu á þingi og málið kunni að daga uppi eftir kosningar, en reiknað sé með að ríkisstjórnin tapi í kosningunum.
Í greininni segir að ef tillagan verði samþykkt verði Íslandi í hópi fárra landa í heiminum sem banni nektarstaði, vændi og klám. Eitt af fáum löndum sem það geri sé Sádi-Arabía, en á lista World Economic Forum sé það landi í 131. sæti af 135 löndum yfir lönd þar sem mest jafnrétti ríki.
Ísland standi hins vegar framarlega í jafnréttismálum. Helmingur ríkisstjórnarinnar sé konur, 25 af 63 þingmönnum séu konur og forsætisráðherra landsins sé samkynhneigð kona.
Í greininni segir að engin feimni ríki á Íslandi gagnvart umræðu um kynlíf. Heimildarmynd um kynlíf hafi nýlega verið sýnd í skólum. Smokkar séu seldir í stórmörkuðum og hjálpartæki ástarlífsins seljist vel.
Öflug feminsta-hreyfing sé á Íslandi og hún hafi beitt sér af krafti gegn klámiðnaðinum.
Í greininni er síðan fjallað um árangur að þeim lögum sem sett hafa verið á síðustu árum. Fram kemur að með lagasetningu hafi að mestu verið kippt fótunum undan rekstri nektarstaða. Haft er eftir Helga Gunnlaugssyni prófessor í félagsfræði og afbrotafræði, grunur leiki á að staðirnir hafi tengst vændi og fíkniefnaviðskiptum, auk þess sem brotið hafi verið á rétti þeirra kvenna sem þar störfuðu.
Í greininni segir að ekki sé eins skýr árangur af setningu laga sem bönnuðu kaup á vændi. Haft er eftir lögreglunni að betur hefði mátt ganga að framfylgja þeim. Um 20 menn hafi verið kærðir fyrir að kaupa vændi en nöfn þeirra hafi ekki verið birt.
Sigríður Hjaltested saksóknari segir í samtali við Economist, að ástæðan fyrir því að ekki hafi gengið betur að framfylgja lögunum sé m.a. skortur á fjármagni og starfsfólki. Lögreglan leggi höfuðáherslu á rannsókn nauðgunarmála og mála sem tengjast kynferðisbrotum gegn börnum.