Skiptir máli að tilkynna nauðgun strax

Oftar var ákært í málum þolenda sem ekki voru undir …
Oftar var ákært í málum þolenda sem ekki voru undir áhrifum áfengis eða fíkniefna en þeirra sem voru undir áhrifum. AFP

Nauðgunarmál sem ekki eru tilkynnt samdægurs til lögreglu eru líklegri en önnur til að vera felld niður hjá ríkissaksóknara. Tími þess hvenær lögreglu berst tilkynning um brot skiptir því máli um framgang þess.Einnig er marktækur munur á málalokum hjá ríkissaksóknara eftir því hve langur tími líður á milli þess að mál eru tilkynnt til lögreglu og þess að tekin er skýrsla af sakborningi.

Í þeim málum sem kærð voru til lögreglu á árunum 2008 og 2009 og vísað var til ríkissaksóknara sem síðar gaf út ákæru, höfðu að meðaltali liðið 8 dagar en í þeim málum sem felld voru niður höfðu liðið að meðaltali 34 dagar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur nýrri rannsókn á einkennum og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009. 189 mál bárust lögreglu á þessu tímabili, en 88 málum var vísað áfram til ríkissaksóknara.

Neitar sök eða engin vitni

Rökstuðningur ríkissaksóknara fyrir því að fella niður mál var oftast margþættur s.s. að sakborningur neitaði sök eða bar við samþykki brotaþola fyrir kynmökum, að engin vitni voru að brotinu og að ekki hafi verið nægileg sönnunargögn fyrir hendi.

Oftar er gefin út ákæra í málum þar sem brotaþoli hafði undirgengist réttarlæknisfræðilega skoðun. Hins vegar var ekki mikill munur á málalokum eftir því hve mikla áverka þolandi hlaut samkvæmt læknisvottorði  og rök fyrir niðurfellingu mála var í sumum tilvikum að óljóst var hvenær brotaþoli hefði hlotið áverka

Þá var marktækt oftar ákært í málum þar sem gögn báru með sér að brotaþoli leitaði sálfræðings. eða í sumum tilvikum geðlæknis, í kjölfar nauðgunarinnar. Slík gögn virðast styrkja mál.

Því eldri - því líklegra að ákært sé

Einnig er marktækur munur á málalokum eftir aldri sakborninga. Þannig er meðalaldur ákærðra 33 ár en meðalaldur sakborninga í málum sem felld voru niður var 26 ár. Ölvunarástand brotaþola hefur líka áhrif. Þannig var oftar ákært í málum þolenda sem ekki voru undir áhrifum áfengis eða fíkniefna en þeirra sem voru undir áhrifum. 

Ríkissaksóknari ákærði í 31 máli af þeim 88 sem send lögregla vísaði til hans og tilkynnt voru á árunum 2008 og 2009. Sakfellt var fyrir nauðgun í 21 máli og í tveimur málum til viðbótar  var sakfellt fyrir önnur kynferðisbrot. Hlutu ákærðu allt frá 6 mánaða til 8 ára fangelsisdóms í héraði. Allir dómarnir voru óskilorðsbundnir. Tveir voru ákærðir fyrir nauðgun gegn tveimur einstaklingum. Meðallengd dóma var tæp 3 ár.

Þess ber að geta í 11 af þessum 20 dómum var einnig sakfellt fyrir fleiri brot, s.s. líkamsárás, vörslu á barnaklámi og þjófnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka