Auður Gunnarsdóttir óperusöngkona neyddist til að gefa frá sér draumahlutverkið í Íslensku óperunni síðasta haust vegna hæsi sem hafði hrjáð hana mánuðum saman. Hún gekk á milli lækna en engin skýring fannst á hvimleiðum kvillanum.
„Ég finn ekkert að þér, þú ert stálslegin,“ sögðu læknarnir hver af öðrum. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Auði í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins um helgina.
Það var svo snemma á þessu ári, tíu mánuðum eftir að einkennin komu fyrst fram, að Auður fór að breyta til á heimili sínu; færði meðal annars þungan bókaskáp sem verið hafði árum saman inni í hjónaherbergi. Þar lá hundurinn grafinn, ellegar myglusveppurinn, kafloðinn og ógeðfelldur á alla kanta.