Tilraun til taubleiuheimsmets

59 foreldrar með 59 börn lögðu sitt að mörkum til …
59 foreldrar með 59 börn lögðu sitt að mörkum til að slá heimsmetið í taubleiuskiptum í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

59 foreldrar og 59 ungbörn komu saman í Salaskóla í Kópavogi í dag og lögðu sitt að mörkum til þess að slá heimsmet í taubleiuskiptingum. Elena Teuffer skipuleggjandi viðburðarins segir vel hafa tekist til enda hafi áhugi Íslendinga á að nota umhverfisvænar taubleiur aukist.

„Hugmyndin kviknaði út frá spjallinu á facebook, þar sáum við að stefnt var að því að setja Guinness-heimsmet í taubleiuskiptingum. Við ákváðum að taka líka þátt,“ segir Elena Teuffer, taubleiusali og heilbrigðistúlkur. 

Þótt frekar hippalegt á tímabili

Þetta er þriðja árið í röð sem reynt er að bæta þetta tiltekna Guinnes met. Í fyrra tóku 8.251 þátt um allan heim en þetta er í fyrsta skipti sem Ísland gerir slíkt. Ströngum reglum þurfti að fylgja til að framlag Íslendinganna væri marktækt. Börnin máttu t.d. ekki vera lengri en metri, foreldrar barnsins urðu að vera eldri en 18 ára og bleiurnar frá viðurkenndum aðilum. Þar eru íslenskar saumakonur meðtaldar.

„Áhugi Íslendinga á að nota taubleiur hefur aukist,“ segir Elena og bendir á að hún hafi í fyrstu verið talin frekar hippaleg í hugsun að nota taubleiur, hér á landi. Hún bendir á að bleiurnar hafi ótvíræða kosti fram yfir venjulegar bleiur. Fyrir það fyrsta eru þær umhverfisvænar og ódýrari í þokkabót.“

Íslendingar aftarlega á merinni í umhverfismálum

Ef notaðar eru venjulegar plastbleiur á barn frá fæðingu til tveggja ára aldurs, gerir það að meðaltali um tvö tonn af rusli en þær brotna seint og illa niður í náttúrunni. Taubleiurnar sem notaðar eru í dag eiga að sögn Elenu ekki mikið skylt við gömlu taubleiurnar, sem notaðar voru fram á níunda áratug síðustu aldar, nema það eitt að vera fjölnota.

„Íslendingar þurfa að taka sig á í umhverfismálum,“ segir Elena en hún er þýsk og ólst upp í Bonn. Hún varð fyrir töluverðu sjokki þegar hún flutti hingað til lands árið 1999 og sá hversu aftarlega Íslendingar voru á merinni þegar kom að umhverfismálum; einkum flokkun rusls. Þá hafði hún vanist því að nota a.m.k. fimm ólíkar tunnur til flokkunar, en hér hafði rétt verið kominn gámur fyrir mjólkurfernur. Ekki sé þó öll nótt úti enn því Íslendingar hafa tekið sig mikið á síðastliðin tvö ár.

Aðspurð segir Elena ekki koma í ljós fyrr en á morgun hvort tekist hafi að slá heimsmetið í taubleiuskiptum. „Það eru 24 tímabelti sem taka þátt í þessu svo við þurfum að bíða fram á morgun þar til búið er að fara yfir öll gögnin. En ég er sannfærð um að það voru margir þátttakendur. Salurinn hér var fullur og ótrúlega góð stemning.“

Elísabet Ósk Jónsdóttir átti yngsta þátttakandann í bleiuskiptunum í dag. …
Elísabet Ósk Jónsdóttir átti yngsta þátttakandann í bleiuskiptunum í dag. Það er Patrekur Dan Svansson sem kom í heiminn 24. febrúar síðast liðinn. mbl.is/Ómar Óskarsson
59 foreldrar með 59 börn lögðu sitt að mörkum til …
59 foreldrar með 59 börn lögðu sitt að mörkum til að slá heimsmetið í taubleiuskiptum í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert