Tveir nauðguðu á meðan sá þriðji ók bílnum

Til að finna sakborninga í nauðgunarmálum er m.a. notast við …
Til að finna sakborninga í nauðgunarmálum er m.a. notast við upptökur úr öryggismyndavélum. mbl.is/Golli

Lögreglan hætti rannsókn á 19 nauðgunarmálum á árunum 2008 og 2009 þar sem gerandinn var óþekktur eða fannst ekki. Við leit að óþekktum gerendum notast lögreglan við ýmsar aðferðir til að reyna að hafa uppi á viðkomandi. M.a. voru rannsökuð gögn úr öryggismyndavélum, símagögn rannsökuð, lífssýni send í DNA rannsókn, lýst eftir gerendum  og þolanda sýnt myndasafn lögreglunnar.

Í samantekt rannsóknar á einkennum og meðferð nauðgunarmála er birt dæmi um lögreglurannsókn þar sem gerendur voru óþekktir. Málavaxtalýsingu var breytt til að tryggja að málsaðilar þekkist ekki.

Fannst illa leikin sitjandi á bekk

Starfsmenn Neyðarmóttöku hafa samband við lögreglu og tilkynna um kynferðisbrot. Lögregla fer á Neyðarmóttöku og tekur frumskýrslu af konu, sem er af erlendu þjóðerni, sem skýrir frá því að hún hafi fengið far með þremur ókunnugum Íslendingum. Tveir mannanna hafi nauðgað henni í bílnum á ofbeldisfullan hátt á meðan sá þriðji ók um. Þeir hafi svo hent henni út úr bílnum en konan fannst illa leikin sitjandi á bekk og var lögreglu í kjölfarið gert viðvart um málið.

Konan vildi í fyrstu ekki greina frá því sem gerst hafði né kæra brotið en eftir að hafa ráðfært sig við lögreglu ákvað hún að leggja fram kæru. Konan gat litlar upplýsingar veitt um mennina og þar sem brotaþoli var erlend þekkti hún illa til staðhátta en gat að einhverju leyti lýst bíl mannanna og hluta af bílnúmeri, útliti gerenda og verslunarmiðstöð sem þau höfðu lagt bílnum við á einhverjum tímapunkti.

Fundust ekki

Rannsókn lögreglu miðaði að því að reyna að kortleggja mögulegan brotavettvang byggt á upplýsingum konunnar, finna sakborninga með því að skoða upptökur öryggismyndavéla við verslunarmiðstöðina og ásamt því að leita að umræddri bifreið meðal annars í bílnúmerskrá.

Lögregla fann eftir leit samskonar bifreið og var eigandi hennar yfirheyrður en niðurstaðan var sú að hann hefði ekki getað verið þáttakandi í brotinu. Sakborningar málsins fundust ekki þrátt fyrir töluverða rannsóknarvinnu af hálfu lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert