Versti vegkaflinn er á Suðurlandsvegi

Vegurinn niður af Hellisheiði um Sandskeið, frá Þrengslavegi að sýslumörkum …
Vegurinn niður af Hellisheiði um Sandskeið, frá Þrengslavegi að sýslumörkum nærri Litlu kaffistofunni, hefur síðustu ár verið sá versti í vegakerfi landsins hvað alvarleg slys varðar. mbl.is/Ómar

Vegkaflinn á hringvegi 1 frá Þrengslavegi og norður að sýslumörkum (fram hjá Litlu kaffistofunni) hefur síðustu ár verið sá allra versti í vegakerfi landsins, hvað meiðsli og banaslys í umferðinni varðar. Þegar horft er til slysa og óhappa almennt er 1 km kafli sunnan við Hvalfjarðargöng verstur.

Í vegakerfinu verða oft slys á sömu köflunum, aftur og aftur. Í nýrri slysaskýrslu Umferðarstofu er birt samantekt yfir verstu vegkafla landsins hvað slys varðar.

Aðskildar akstursstefnur bjarga mannslífum

Þegar saman kemur tíð umferð, mikill hraði og galli í veghönnun getur útkoman verið hættuleg. Það er ekki tilviljun að Reykjanesbraut, Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur eru þeir hlutar vegakerfisins þar sem hvað flestir hafa látið lífið.

Fyrir 10-12 árum voru framanákeyrslur í og við höfuðborgarsvæðið ein algengasta tegund banaslysa. Mikill árangur hefur náðst með viðgerðum og úrbótum á vegunum, s.s. með tvöföldun Reykjanesbrautar sem án efa hefur bjargað mörgum mannslífum.

Rannsóknir sýna að ein áhrifamesta aðgerðin til að auka umferðaröryggi er að aðskilja akstursstefnur og setja upp vegrið á milli og hefur Vegagerðin unnið að því á vegaköflum innan höfuðborgarsvæðisins. Nýlega var ákveðið, í ljósi ítrekaðra slysa þrátt fyrir tvöföldun, að setja upp vegrið á Reykjanesbrautinni allri og vegrið hafa verið sett milli akstursstefna á köflum Suðurlandsvegar þar sem búið er að tvöfalda, en ekki alls staðar.

Tæplega 5 alvarleg slys á hvern km

Kaflinn frá Þrengslavegi og framhjá Litlu kaffistofunni er enn hlutfallslega sá versti þegar kemur að umferðarslysum með meiðslum. Hann er aðeins 4,41 km langur en þar varð samtals 21 slys með meiðslum á 5 ára tímabili, frá 2008-2012. Það gera 4,8 slys með meiðslum á hvern kílómetra.

Ásgeir Ingvi Jónsson er einn fjölmargra sem lent hafa í alvarlegum umferðarslysum á þessum vegakafla, en hann missti dóttur sína og sonur hans lamaðist í árekstri þar árið 2006. Í viðtali við mbl.is í fyrra sagði hann frá slysinu og lýsti því hve erfitt hafi verið að hlusta á rifrildi fram og til baka um umbætur á veginum um margra ára skeið áður en nokkuð var gert:

„Að hlusta á þessar umræður eins og voru um Suðurlandsveginn, mér fannst það alltaf mjög sárt [...] því það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir, ég er nú búinn að gleyma fjöldanum á krossunum í Ölfusi vegna fólks sem hefur farist á Suðurlandsvegi, en það er fjöldi manns sem hefur misst ástvini á þessum vegi. Með því að að aðgreina akstursstefnurnar hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau,“ sagði Ásgeir.

Suðurnesjamenn í flestum slysum

Næstversti veghlutinn hvað slys með meiðslum varðar er 11,62 km langur kafli á Reykjanesbraut, frá brúnni yfir Vatnsleysustrandarveg að Grindavíkurvegi. Þar urðu á sama tímabili, 2008-2012, alls 42 slys með meiðslum, sem gerir 3,6 alvarleg slys á hvern keyrðan kílómetra.

Þriðji versti vegakafli síðustu ára er á svipuðum slóðum, á Grindavíkurvegi frá Reykjanesbraut að Grindavík. Þar hafa orðið 2,7 alvarleg slys á hvern kílómetra, alls 36 slys með meiðslum síðustu 5 ár.

Í ljósi þessa þarf ekki að koma á óvart að Suðurnesjamenn lentu í flestum umferðarslysum miðað við höfðatölu á tímabilinu 2008-2012. Í fyrra horfði þó betur við hjá Suðurnesjamönnum, en íbúar Norðurlands tóku við keflinu og lentu í flestum slysum á 12 mánuðum.

Innan þéttbýlisstaða eru það sömuleiðis íbúar Reykjanesbæjar sem lent hafa í flestum slysum síðastliðin fimm ár. Árið 2012 voru það þó Ísfirðingar sem lentu í flestum slysum innan þéttbýlisstaða. 

Mörg slys á stuttum kafla við Hvalfjarðargöng

Þegar vegir í dreifbýli eru skoðaðir með tillits til heildarfjölda slysa og óhappa, með og án meiðsla, á tímabilinu 2008-2012 þá er tæplega 1 km kafli á hringveginum frá syðri enda Hvalfjarðarganga orðinn sá versti, samkvæmt skýrslu Umferðarstofu.

Á þessum stutta kafla urðu alls 13 slys og óhöpp á fimm ára tímabili. Það þýðir hlutfallslega 13,8 slys á hvern ekinn km. Næstversti veghlutinn hvað slys með og án meiðsla varðar er svo sá sami og er hættulegastur hvað alvarleg slys varðar, þ.e. áðurnefndur kafli Suðurlandsvegar frá Þrengslavegi að Litlu kaffistofunni.

Þriðji hættulegasti kaflinn hvað slys almennt varðar er svo Reykjanesbrautin frá Vatnsleysustrandavegi að Grindavíkurvegi þar sem urðu 13,4 slys á kílómetra. Fjórði versti vegakaflinn hvað slys almennt varðar er 1,58 km kafli á hringveginum um Eyjafjarðarbraut en strax þar eru slysin töluvert færri, 9,9 á hvern km.

Slysum fækki um 5% á ári

Markmið yfiralda er að fækka alvarlega slösuðum og látnum í umferðinni um 5% á hverju ári fram til ársins 2022. Ætlunin er einnig að vera í hópi þeirra þjóða sem best standa sig með tilliti til banaslysa í umferðinni. Til að ná fram því markmiði hafa verið sett fram undirmarkmið sem hvert um sig stuðlar að fækkun alvarlegra slysa.

Í slysaskýrslu Umferðarstofu segir að árið 2012 hafi gengið vel að stefna að þessum markmiðum. 

Lögreglan lokar Grindavíkurvegi vegna umferðarslyss. Þar hafa orðið 2,7 alvarleg …
Lögreglan lokar Grindavíkurvegi vegna umferðarslyss. Þar hafa orðið 2,7 alvarleg slys á hvern km undanfarin 5 ár. mbl.is/Hilmar Bragi
Á Reykjanesbraut urðu 3,6 alvarleg umferðarslys á hvern kílómetra á …
Á Reykjanesbraut urðu 3,6 alvarleg umferðarslys á hvern kílómetra á kaflanum frá Vatnsleysuströnd að Grindavíkurvegi. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
Tæplega 1 km kafli sunnanmegin Hvalfjarðarganga er sá hluti vegkerfisins …
Tæplega 1 km kafli sunnanmegin Hvalfjarðarganga er sá hluti vegkerfisins þar sem hlutfallslega flest óhöpp verða í umferðinni. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert