Á árunum 2008 og 2009 bárust lögregluembættum landsins tilkynningar um 22 hópnauðganir, þ.e. nauðganir þar sem gerendur voru tveir eða fleiri. Megineinkenni málanna voru annars vegar þau að tveir eða fleiri gerendur voru kærðir fyrir að nauðga þolanda hver á eftir öðrum og hins vegar að tveir eða fleiri gerendur voru kærðir fyrir að nauðga þolanda samtímis. Í þessum málum voru gerendur á aldrinum 12-52 ára.
Þetta er meðal þess sem Edda - öndvegissetur við Háskóla Íslands komst að við rannsókn á meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu. Rannsóknin var unnin af Hildi Fjólu Antonsdóttur, mann- og kynjafræðingi og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, lögfræðingi, með aðstöð Maríönnu Þórðardóttur meistaranema í lýðheilsuvísindum. Samantekt um fyrsta áfanga rannsóknarinnar kom út fyrir helgi.
Alls var tilkynnt um 189 nauðgunarmál til lögreglu á þessu tveggja ára tímabili. Fjöldi mála þar sem gerendur voru fleiri en einn var alls 22, eða 13,3% málanna, og voru gerendur á bilinu tveir til fjórir í hverju broti.
Þrír nauðguðu konu samtímis
Í sjö málum lýsti brotaþoli nauðguninni þannig að fyrst hefði einn gerandi brotið gegn honum og því næst annar. Dæmi um slíkt mál var þegar ung kona lagði fram kæru á hendur tveimur mönnum sem brotið höfðu gegn henni hver á eftir öðrum. Hún hafði fengið að leggjast til svefns í íbúð þeirra þar sem hún var afar drukkin og hafði ekki komist heim til sín. Mundi hún slitrótt eftir ofbeldinu vegna mikillar ölvunar.
Í níu málum var greint frá því að gerendur hefðu allir, tveir til fjórir, brotið gegn þolanda samtímis. Dæmi um slíkt var kæra ungrar stúlku sem greindi frá því að hún hefði verið mjög ölvuð niðri í bæ og fengið far með þremur mönnum sem höfðu í kjölfarið allir brotið gegn henni samtímis. Eins og í málinu hér að ofan, mundi hún einnig einungis slitrótt eftir ofbeldinu vegna ölvunar.
Í sex málum til viðbótar var tilkynnt um nauðganir þar sem fleiri en einn maður hafði verið að verki en hvorki lágu fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda gerenda né um hvað átti sér nákvæmlega stað þar sem kæra lá ekki fyrir í þeim málum. Í tveimur þessara mála mátti skilja af greinargerðum lögreglu að konurnar hefðu fundist mjög illa haldnar og þá gefið til kynna að gerendur hefðu verið fleiri en einn. Í kjölfarið hafði lögregla svo keyrt þær á neyðarmóttöku.
Þolendur í afar viðkvæmri stöðu
Málin voru mjög ólík innbyrðis og því vandkvæðum bundið að draga skýrar línur hvað varðar einkenni þeirra. Þó má segja, að mati rannsakenda, að í mörgum tilvikum voru brotaþolar undir miklum áhrifum áfengis og því í afar viðkvæmri stöðu, en gerendur voru aftur á móti undir mun minni áhrifum. Einnig má segja að í flestum málunum þekkti brotaþoli gerendur mjög lítið eða ekkert. Einungis tveimur þessara mála lauk með dómi en í báðum þeim málum þekktu brotaþolar gerendur mjög náið og voru brotin þá hluti af ítrekuðum brotum gegn þolendum.
Meðalaldur þeirra 23 brotaþola sem leituðu til lögreglu vegna brota þar sem gerendur voru fleiri en einn var 23,4 ár og var helmingur þeirra undir 19 ára aldri. Yngsti brotaþolinn var 4 ára en sú elsta var 49 ára. Aldur brotaþola í þessum brotum er mjög svipaður heildarúrtakinu þar sem meðalaldur var 22 ár og helmingur gerenda voru 19 ára og yngri.
<strong>Helmingur gerenda undir 21 árs aldri</strong>
Í þeim málum þar sem lá fyrir hverjir gerendur voru samkvæmt upplýsingum frá brotaþola, var meðalaldur gerenda 26,4 ár og helmingur þeirra var undir 21 árs aldri. Yngsti gerandinn var 12 ára og sá elsti var 52 ára. Í 8 málum voru kærðu ýmist óþekktir eða fundust ekki. Aldur gerenda í þessum brotum er því almennt nokkuð yngri en í heildarúrtakinu þar sem meðalaldur gerenda var 28,8 ár og helmingur þeirra undir 25 ára aldri.