Hefði jákvæð áhrif á hagsmuni Íslands

Össur Skarphéðinsson ásamt Karel De Gucht.
Össur Skarphéðinsson ásamt Karel De Gucht. Ljósmynd/Evrópusambandið

Mögulegur ávinningur Evrópusambandsins og Bandaríkjanna af fyrirhuguðum fríverslunarsamningi þeirra á milli verður ekki á kostnað annarra ríkja í heiminum. Þvert á móti hefði aukið frelsi í viðskiptum á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna jákvæð áhrif á heimsviðskipti og skila sér í auknum tekjum á alþjóðavísu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Evrópusambandinu í kjölfar fundar Karels De Gucht, viðskiptastjóra Evrópusambandsins, og Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, sem fram fór fyrr í þessum mánuði. De Gucht sagði að nánustu viðskiptaríki sambandsins ættu hvað mesta möguleika á því að hagnast á fríverslun á milli þess og Bandaríkjanna.

Til að mynda ætti það við um þau ríki sem þegar ættu aðild að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Hann sagði Ísland í sérstakri stöðu í þeim efnum vegna aðildar landsins að EES-samningnum og umsóknar þess um aðild að sambandinu.

Ennfremur segir, eins og mbl.is hefur áður sagt frá, að Evrópusambandið muni gera Íslandi kleift að fylgjast náið með þróun fríverslunarviðræðnanna við Bandaríkin í tengslum við umsóknina um inngöngu í sambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert