„Það hefur ekki verið haft samband við mig vegna málsins, ég hef ekki verið beðinn um að koma út til að vera viðstaddur, þannig að ég stórefa að ég þurfi að vera við fyrirtökuna,“ segir Davíð Örn Bjarnason, sem grunaður var um fornmunasmygl frá Tyrklandi í mars.
Taka á mál Davíðs fyrir á fimmtudaginn, 25. apríl. Hann segist eiga von á að heyra þá frá lögfræðingi sínum ytra. „Þetta kemur allt í ljós á fimmtudaginn,“ segir hann.
Davíð var stöðvaður á flugvellinum í Antalya í Tyrklandi þann 10. mars er hann var á leið til síns heima í Svíþjóð eftir að hafa verið í fríi í Tyrklandi ásamt Þóru Björgu Birgisdóttur, sambýliskonu sinni, en hann var með marmarastein í farangri sínum sem hann hafði keypt sem minjagrip. Tyrknesk tollyfirvöld mátu það sem svo að hann hefði reynt að smygla forngrip úr landi, en við því eru ströng viðurlög.
Hann var í fangelsi í tæpa viku, en var síðan leystur úr haldi og settur í farbann sem átti að standa til 25. apríl. Því var þó fljótlega aflétt og hann fékk að fara úr landi í lok mars.