Sumir þurfa að borga meira eftir 4. maí

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Breytingar á greiðsluþátttökukerfi hins opinbera vegna lyfja taka gildi eftir nokkra daga, þann 4. maí næstkomandi. Breytingunum er ætlað að auka jöfnuð milli fólks óháð sjúkdómum og draga úr útgjöldum þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda. Með nýju lögunum minnkar þannig lyfjakostnaður margra umtalsvert en þeir sem áður fengu lyf sín að fullu niðurgreidd þurfa eftir breytinguna að borga þau upp að tilteknu hámarki.  Sykursjúkir eru í þessum hópi og eru uggandi um sinn hag.

Ungur sykursjúkur karlmaður segir nýju lögin hafa einna mest áhrif á hag sykursjúkra. „Það verður að hafa í huga í þessu sambandi að þessi lyf eru okkur lífsnauðsynleg, það er ekki eins og við getum valið hvort við ætlum að taka þau eða ekki. Svo þurfa margir ýmsan búnað aukalega, til dæmis insúlíndælur sem við greiðum hluta af og blóðstrimla fyrir mælitæki.“

Hámarkslyfjakostnaður settur í lög

Hingað til hefur ekkert hámark verið á lyfjakostnaði þeirra sem nota mörg eða dýr lyf en með nýja kerfinu er tryggt að öryrkjar, aldraðir, og börn og ungmenni yngri en 22 ára munu að hámarki greiða sem nemur um 4.000 krónum á mánuði, eða 48.150 kr á ári fyrir lyf sem eru með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Hver fjölskylda þarf ekki að greiða meira en sem þessari tilteknu upphæð nemur fyrir börnin í fjölskyldunni, þó að fleira en eitt barn þurfi reglulega á lyfjum að halda.

Greiðsluþakið er 69.416 kr fyrir fullorðna og þegar hámarki er náð, biður sjúklingur lækni um að senda umsókn um lyfjaskírteini til Sjúkratrygginga Íslands. Umsóknin fer í vinnslu hjá SÍ sem hafa upplýsingar um lyfjaúttektir viðkomandi. Ef umsóknin er samþykkt greiðir SÍ 100% í lyfjum sem hafa greiðsluþátttöku út 12 mánaða tímabilið. 

Einkum tveir hópar þurfa að greiða meira

Það eru einkum tveir hópar sem munu þurfa að greiða meira en áður eftir að nýju lögin hafa tekið gildi. Annars vegar þeir sem eru með mjög lágan heildarlyfjakostnað, undir 24.075 kr á ári eða minna en 16.050 kr ef um er að ræða lífeyrisþega eða börn. Þessir hópar munu þurfa að greiða öll lyf sín að fullu í nýja kerfinu.

Hinn hópurinn er sá sem hefur verið að fá *-merkt lyf, sem hafa verið greidd að fullu af SÍ. Í þessum hópi lyfja eru sykursýkislyf, en einnig lyf við gláku, krabbameinslyf, lyf við parkinsonssjúkdómnum, flogaveiki og Sjögren sjúkdómnum. Rúmlega 30.000 manns hafa verið að taka þessi *-merktu lyf.

Þrír hópar munu áfram fá lyf sín niðurgreidd að fullu. Það er fólk sem nýtur líknandi meðferðar í heimahúsi, þeir sem eru með nýrnabilun á lokastigi og fólk með alvarlega geðrofssjúkdóma.

Kostnaðurinn eykst um 100.000 á ári

Móðir tveggja unglingsstúlkna, sem báðar eru með sykursýki 1 og þurfa á insúlíngjöfum að halda, segir gildistöku nýju laganna hafa veruleg áhrif á fjárhag heimilisins, en kostnaður vegna lyfja og annars sem sjúkdómnum fylgir mun hækka um tæpar 100.000 krónur að sögn móðurinnar.

„Kostnaður okkar á ári vegna þessa er um 140.000 núna, en eftir breytinguna verður hann 240.000.“

Ýmis dulinn kostnaður

Móðirin segir kostnaðinn hingað til hafa falist í læknisheimsóknum og ýmsum aukahlutum sem nauðsynlegir eru við lyfjagjöf og eftirlit með sykursýkinni, eins og til dæmis insúlíndælu og strimlar sem nota þarf í blóðsykurmæla.  Við lendum svo illa í þessu nýja frumvarpi.”

Hún segir að dætur sínar þurfi að fara til sérfræðings fjórum sinnum á ári, hver heimsókn kosti 4.800 krónur. Að auki þurfi þær að fara reglulega til augnlæknis og vera á tilteknu mataræði. „Þannig að það er ýmis dulinn kostnaður og ofan á hann er núna að bætast þessi lyfjakostnaður.“

Sláandi munur eftir löndum

Önnur stúlknanna hefur leitað sér upplýsinga víða og hefur verið í samskiptum við samtök sykursýkissjúklinga á hinum Norðurlöndunum. Móðirin segir muninn á greiðsluþátttöku sláandi eftir löndum.

„Í Finnlandi þurfa sykursjúkir að greiða þrjár evrur á þriggja mánaða fresti fyrir lyfin, ekkert þarf að greiða í Svíþjóð og danskir sykursýkissjúklingar greiða helminginn af því sem við erum að greiða hér. Það má segja að þetta sé eins og lífsskattur; sykursjúkir eru í rauninni að greiða fyrir að halda lífi því að það er ekkert hægt að spara við sig í insúlíninu eða sleppa því að fara til læknis. Þetta er lífsnauðsynlegt.“

Frétt mbl.is: Sumir þurfa að greiða minna, aðrir meira

Þeir sem eru með sykursýki 1 þurfa að sprauta sig …
Þeir sem eru með sykursýki 1 þurfa að sprauta sig reglulega með insúlíni. Jim Smart
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert