Valitor ber að opna greiðslugáttina

Hlekkur inni á vefsvæði DataCell.
Hlekkur inni á vefsvæði DataCell. Mynd/DataCell

Hæstiréttur staðfesti í dag niðurstöðu héraðsdóms í máli Datacell gegn Valitor. Ber Valitor því að opna greiðslugátt samkvæmt samningi aðilanna.

Datacell, sem hafði með höndum starfsrækslu gagnavers, varðveislu rafrænna gagna og tölvuþjónustu, þ. á m. í þágu Sunshine Press Productions ehf., sem rak alþjóðlega starfsemi undir heitinu Wikileaks, gerði samning um greiðsluþjónustu við greiðslukortafyrirtækið Valitor 15. júní 2011. Með tölvubréfi 8. júlí sama ár rifti Valitor samningnum með vísan til þess að Datacell hefði brotið gegn almennum viðskiptaskilmálum og að alþjóðlegar kortasamsteypur heimiluðu ekki þjónustu sem Datacell sinnti fyrir Wikileaks sem ekki hefði verið tilgreind í umsókn.

Datacell höfðaði mál gegn Valitor og krafðist þess að félaginu yrði gert að opna greiðslugátt samkvæmt samningi þeirra að viðlögðum dagsektum. Eins og atvikum málsins var háttað taldi Hæstiréttur að Datacell hefði í framhaldi af umsókn sinni um þjónustu Valitor veitt upplýsingar sem bæru greinilega með sér til hvers Datacell hefði ætlað að nota greiðslugáttina.

Með því að Valitor hefði allt að einu opnað fyrir aðgang að greiðslugáttinni hefði Datacell mátt leggja til grundvallar að Valitor liti svo á að starfsemin félli innan marka þeirrar lýsingar sem fram kom í umsókn Datacell og samningi þeirra og væri samrýmanleg ákvæðum almennra viðskiptaskilmála Valitors. Samkvæmt því var talið að Valitor hefði brostið heimild til að rifta samningi þeirra og að ekki væru efni til að telja Valitor geta losnað undan samningnum vegna atvika sem valdið gætu ógildingu hans. Var Valitor því gert að opna greiðslugátt samkvæmt samningi aðilanna að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 800.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert