Veturinn sleppir ekki tökunum strax

Siglufjörður.
Siglufjörður. mats.is

„Það er bara vetur og allt hvítt,“ segir Guðbrandur Ólafsson, lögreglumaður í Fjallabyggð. Þótt dagatalið gefi annað til kynna er ekkert útleit fyrir innreið sumarsins á Norðurlandi. Veturinn hefur verið langur og flestir eru enn á nagladekkjum enda ekkert sem gefur tilefni til annars.

„Menn leyfa nú yfirleitt aprílmánuði að líða áður en þau eru tekin undan,“ segir Guðbrandur. Snjóþekja og skafrenningur eru nú á Siglufjarðarvegi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Á Þverárfjalli er hálka og hálkublettir á Öxnadalsheiði og flestum öðrum leiðum norðanlands.

Norðlendingar eru hins vegar vanir vetrarfærðinni og láta hana ekki slá sig út af laginu. Að sögn lögreglunnar á Dalvík er þar allt á kafi í snjó líkt og verið hefur nánast linnulaust síðan í haust en þar, sem og á Siglufirði og Ólafsfirði, gengur umferð vel og slysalaust fyrir sig. Við Dalvík hefur ekki komið til þess að vegir séu lokaðir vegna ófærðar í tæpar tvær vikur, að sögn lögreglu.

Hálka og hálkublettir á vegum víða um land

Á Norðurlandi eystra eru snjóþekja og hálkublettir nokkuð víða. Í Víkurskarði er hálka og smá éljagangur og söumuleiðis á flestum leiðum í kringum Akureyri. Einnig er hálka í kringum Mývatn og hálka og skafrenningur á Mývatnsöræfum. Ófært er um Dettifossveg.

Á Austurlandi er litlu sumarlegra um að litast þótt vegir séu að mestu greiðfærir. Snjóþekja er á Vopnafjarðarheiði og í Vatnsskarði eystra og þæfingsfærð á Möðrudalsöræfum. Hálka er á Fjarðarheiði og hálkublettir í Fagradal. Á Breiðdalsheiði og Öxi er þæfingsfærð.

Á Vestfjörðum hefur veturinn heldur ekki sleppt tökunum. Þar er snjóþekja eða hálka á flestum leiðum og skafrenningur bæði á Steingrímsfjarðarheiði og á Þröskuldum. Á Dynjandisheiði er ófært en unnið að mokstri.

Á Suðausturlandi er krapasnjór allt frá Mýrdalssandi að Kvískerjum. Hálkublettir eru á Hellisheiði, Sandskeiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði. Frá Selfossi að Þjórsá eru hálkublettir og hálka á vegum allt frá Þjórsá að Markarfljóti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert