Þyrlan mögulega sótt á bíl

Gná þurfti að nauðlenda í nágrenni Hornafjarðar í dag.
Gná þurfti að nauðlenda í nágrenni Hornafjarðar í dag. Af vef Landhelgisgæslunnar

TF-Syn, þyrla Landhelgisgæslunnar, lenti um áttaleytið í nágrenni Hornafjarðar með flugvirkja og viðgerðartól fyrir TF-Gná sem þurfti að nauðlenda þar í dag. Enn er verið að fara yfir hve alvarleg bilunin er en talið er líklegt að það muni þurfa að senda bíl til þess að flytja Gná til Reykjavíkur. 

„Við erum ekki bjartsýnir á að henni verði flogið þarna, við teljum að það þurfi að sækja hana á bíl. Það yrði farið í það á morgun miðað við það sem þeir finna út í kvöld,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Bilunin kom upp í gírkassa vélarinnar og neyddist áhöfn þyrlunnar til þess að nauðlenda henni við fyrsta tækifæri þegar viðvörunarljós kviknaði. Segir Ásgrímur það sýna áhættuna sem fylgi því að fljúga á haf út og nauðsyn þess að hafa aðra þyrlu reiðubúna sem geti verið til taks ef eitthvað bjátar á.

Frétt mbl.si: Þyrla Gæslunnar þurfti að nauðlenda

Frétt mbl.is: Ein þyrla til taks og án nætursjónauka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert