Ákærður fyrir ítrekuð umferðarlagabrot

Suma þarf að taka úr umferð vegna umferðarlagabrota að mati …
Suma þarf að taka úr umferð vegna umferðarlagabrota að mati lögreglu. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag var tekið fyrir mál karlmanns í héraðsdómi vegna ítrekaðra umferðarlagabrota. Maðurinn ók of hratt, undir áhrifum fíkniefna og áfengis, án ökuréttinda. Brotin áttu sér stað á um hálfs árs tímabili og eru sjö talsins.

Maðurinn er í fyrsta lagi ákærður fyrir að hafa í september 2011 í Garðabæ ekið bifreið með 132 hraða á klst. suður Reykjanesbraut þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klst. og eftir að lögregla stöðvaði aksturinn ekki hlýtt fyrirmælum hennar um að halda kyrru fyrir heldur ekið á brott frá vettvangi.

Þá fyrir að hafa í ágúst sama ár í Reykjavík ekið bifreið óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 370 ng/ml) á bifreiðastæði við Súðavog þar sem hann stöðvaði bifreiðina og lögregla hafði afskipti af honum.

Í þriðja lagi fyrir að hafa í desember 2011 í Reykjavík ekið bifreið óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 620 ng/ml) uns lögregla stöðvaði aksturinn.

Í fjórða lagi fyrir að hafa í febrúar á síðasta ári  bakkað bifreið óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 225 ng/ml) norður Réttarholtsveg uns lögregla stöðvaði aksturinn.

Í fimmta lagi fyrir að hafa ekið bifreið án gildra ökuréttinda og á 89 km hraða á klst. norður Fjallkonuveg þar sem leyfður hámarkshraði var 60 km á klst.

Í sjötta lagi fyrir að hafa í mars sama ár verið tekinn á bílastæði við verslunarmiðstöð og hafði þá haft í vörslu sinni 0,41 g af amfetamíni og lögregla lagði hald á.

Og svo í sjöunda lagi fyrir að hafa í apríl 2012 ekið bifreið óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 215 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 5,0 ng/ml) uns lögregla stöðvaði aksturinn.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sækir málið og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert