Verður fyrir austan fram yfir helgi

Flugvirkjar skoðuðu þyrluna í gær.
Flugvirkjar skoðuðu þyrluna í gær. mbl.is/Sigurður Gunnarsson

Landhelgisgæslan hefur tekið ákvörðun um að Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar verði á Kvískerjum fram yfir helgi en í dag munu blöðin verða tekin af þyrlunni og þau send með flutningabíl til Reykjavíkur. Eftir að hafa metið stöðuna til hlítar var ákveðið að klára reglubundna skoðun þyrlunnar Líf hið fyrsta og að henni lokinn hefjist vinna við Gná. Flugtæknideild er í sambandi við framleiðendur þyrlunnar varðandi framhaldið. Talsvert verkefni er að flytja þyrluna til Reykjavíkur en ekki er hægt að vinna að viðgerð þyrlunnar á staðnum.

Bilun kom upp í Gná, þyrlu Landhelgisgæslunnar,  þegar hún var á leið í útkall um miðjan dag í gær. Nauðsynlegt varð að öryggislenda þyrlunni í nágrenni Hornafjarðar. TF-SYN var send á vettvang með flugvirkja og viðgerðartæki og var þar athugað hversu alvarleg bilunin væri og hvort hægt væri að gera við þyrluna á staðnum.  Var niðurstaðan sú að ekki er raunhæft að framkvæma viðgerð á staðnum og flytja þurfi þyrluna til Reykjavíkur með flutningabíl.

Er Landhelgisgæslan því nú aðeins með eina þyrlu, Syn til taks og er hún með takmarkaða björgunargetu. Líf er í reglubundinni skoðun og Gná biluð.  Landhelgisgæslan hefur ítrekað bent á þörfina fyrir endurnýjun þyrluflotans. Gná og Syn eru báðar leiguþyrlur, Syn verður skilað í haust en Gná á næsta ári. Stefnir þá allt í að aðeins verði  ein þyrla, Líf í rekstri Landhelgisgæslunnar.

Leituðu til Dana

Danskt varðskip er að koma til hafnar í Reykjavík í dag, en Landhelgisgæslan hafði samband við skipið í gær til að kanna hvort hægt væri að kalla til þyrlu skipsins ef þörf væri á. Svo óheppilega vill til að þyrlan um borð er biluð. Danir ætla hins vegar að senda annað varðskip til Ísland, sem nú er við Færeyjar. Skipið kemur til landsins um helgina. Um borð í skipinu er björgunarþyrla.

Frétt mbl.is: Ein þyrla til taks og án nætursjónauka

Frétt mbl.is: Ákvörðun tekin í dag um viðgerð

Frétt mbl.is: Sá þyrluna lenda í túnfætinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert