TF-Líf verði klár eftir viku

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-Líf.
Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-Líf. Landhelgisgæslan

Gert er ráð fyrir því að reglubundinni skoðun á þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-Líf verði lokið eftir viku en upphaflega stóð til að henni lyki ekki fyrr en eftir um það bil hálfan mánuð að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa Gæslunnar. Öll áhersla hefur verið lögð á að ljúka skoðuninni sem fyrst í kjölfar þess að björgunarþyrlan TF-Gná þurfti að nauðlenda í nágrenni Hornafjarðar í gær vegna bilunar í gírkassa.

Ljóst er að flytja þarf TF-Gná með bifreið til Reykjavíkur en ekki liggur þó enn fyrir hvernig staðið verður að viðgerð hennar. Endanleg ákvörðun í þeim efnum ætti að liggja fyrir á morgun að sögn Hrafnhildar. Þyrluspaðar TF-Gnár voru teknir af henni í dag og fluttir til Reykjavíkur enda um viðkvæman búnað að ræða. Þyrlan sjálf verður væntanlega flutt til borgarinnar eftir helgi. Einungis er ein björgunarþyrla Gæslunnar til taks eftir að TF-Gná var úr leik en sú þyrla, TF-Sýn, en hún er hins vegar ekki búin sjónauka til næturflugs og hefur því takmarkaðri getu.

Danska herskipið Triton kom til hafnar í Reykjavík í morgun og ræddu fulltrúar Landhelgisgæslunnar við skipherra þess, Lars Jensen, um aðstoð Lynx-þyrlu sem er um borð. Til stóð að annar flugmanna hennar færu til Danmerkur í fyrramálið en Jensen féllst á að halda honum um borð í skipinu fram á sunnudagskvöld þegar danska herskipið Vædderen kemur til Reykjavíkur. Þá mun þyrla þess taka við af þyrlu Tritons og vera til taks þar til Vædderen yfirgefur landið á miðvikudaginn í næstu viku.

Frétt mbl.is: Verður fyrir austan fram yfir helgi

Frétt mbl.is: Horfði á þyrluna lenda

Frétt mbl.is: Ákvörðun tekin í dag um viðgerð

Frétt mbl.is: Ein þyrla til taks og án nætursjónauka

Frétt mbl.is: Þyrla Gæslunnar þurfti að nauðlenda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert