Tölvuleikjafyrirtækið CCP vinnur nú að gerð sjónvarpsþáttaraðar sem byggð er á EVE Online, fjölspilaratölvuleik fyrirtækisins og hefur fengið Baltasar Kormák og framleiðslufyrirtæki hans til samstarfs.
Sjónvarpsþættirnir munu verða byggðir á sögum þeirra sem spila leikinn, þar sem þeir segja frá því sem þeir hafa gert eða hafa lent í í leiknuym.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, greindi frá þessu í lokafyrirlestri sínum á Eve Fanfest, hátíð þeirra sem spila tölvuleikinn, í dag.
Í fréttatilkynningu frá CCP er haft eftir Baltasar að Eve-heimurinn sé fullur af heillandi sögum af sögulegum bardögum, djörfum ránsferðum og pólitísku leynimakki sem sé kjörinn efniviður í frábæra sjónvarpsþætti.