Norræna sýningin NORDIA mun fara fram í Ísland á þessu ári. Hún verður haldin aðra helgina í júní og reiknað er með á þriðja hundrað erlendra gesta til landsins af þessu tilefni.
Á sama tíma er minnst þeirra tímamóta að á þessu áru eru liðin 140 ár frá útgáfu fyrsta íslenska frímerkisins. Verndari NORDIA 2013 er forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.
NORDIA 2013 verður haldin á vegum Landssambands íslenskra frímerkjasafnara (LÍF) og fer hún fram í Ásgarði í Garðabæ. Sýndir verða um 700 rammar af frímerkjum og tengdum hlutum. Verðmæti sýningarinnar er mikið og þar verða sýndir fjölmargir gripir sem vart verða metnir til fjár, segir í tilkynningu.
Kaupmenn alla leið frá Kína
Fjölbreytni er lykilorðið á sýningunni og auk sígildra sýningarflokka verður hér í fyrsta skipti efnt til samkeppni um póstkortasöfn, en söfnun póstkorta hefur rutt sér mjög til rúms á undanförnum árum. Einnig verður haldinn safnaramarkaður þar sem hægt verður að versla með ýmsa safngripi. Þegar hafa fjölmargir erlendir kaupmenn boðað komu sína á sýninguna, þar á meðal alla leið frá Kína.
Elsta íslenska frímerkið 140 ára
Á sama tíma er minnst þeirra tímamóta að 140 ár eru liðin frá útgáfu fyrsta íslenska frímerkisins. Íslensk skildingafrímerki voru gefin út 1873, aðeins 33 árum eftir að fyrsta frímerkið var gefið út í heiminum, hið breska Penny Black. Fram til þess tíma höfðu viðtakendur póstsendinga greitt fyrir sendingarkostnaðinn en nú greiddi sendandinn. Fjöldi póstsendinga jókst mikið eftir þessa einföldu breytingu með tilheyrandi eflingu samskipta fólks, sem oft bjó langt frá hvert öðru. Hérlendis voru gefin út fimm verðgildi frímerkja, 2, 3, 4, 8 og 16 skildingar, og eru umslög með þessum frímerkjum afar mikils virði í dag. Verðmæti þeirra getur jafnvel hlaupið á milljónum.
Smátt er fagurt
Safnarar frá Norðurlöndum og Bandaríkjunum keppa um verðlaun fyrir söfn sín á sýningunni en einnig er nokkrum frægum söfnurum boðið að sýna perlurnar sínar. Vonast LÍF til að NORDIA 2013, sem haldin verður 7. til 9. júní nk. verði mikil lyftistöng fyrir frímerkjasöfnun hérlendis og veki athygli bæði innanlands og utan.
Um áratuga skeið var frímerkjasöfnun helsta áhugamál margra ungmenna og þeirra sem eldri voru. Krakkar sem fullorðnir viðuðu að sér margskonar fróðleik um frímerki og líflegir skiptimarkaðir með frímerki stóðu í miklum blóma. Á tímum rafrænna samskipta og vélmerkts bréfpósts hefur verulega dregið úr notkun frímerkja en fyrir vikið eru þau ennþá fágætari og sérstæðari en áður og söfnunargildi þeirra hefur aukist til muna. Auk fágætis, sögulegs gildis og verðmætis getur frímerki verið fagurfræðilegt listaverk og eiga þar vel við kjörorðin „smátt er fagurt“.
Frímerki gefin út í tilefni af sýningunni
LÍF hefur áður verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að halda NORDIA en þrjú ár eru liðin síðan hún var hýst hér síðast og sex ár þar á undan. Fyrsta sýningin af þessum toga var haldin hérlendis árið 1984 og troðfyllti hún Laugardalshöll.
Íslandspóstur hefur ákveðið að gefa út sérstök frímerki í tilefni af NORDIA 2013 og er myndefni þeirra norðurljósin í allri sinni dýrð, enda eru þau farin að laða ferðamenn hingað til lands í miklum mæli um vetrartímann.