Ísblokkir geta hrunið hvenær sem er

Félagarnir í grunnbúðum Everest.
Félagarnir í grunnbúðum Everest.

„Það gengur ágætlega, þakka þér fyrir. Þetta er stanslaus barátta,“ segir fjallgöngumaðurinn Ingólfur Geir Gissurarson, sem er nú staddur í grunnbúðum Everest-fjalls, hæsta fjalls heims, ásamt Guðmundi Stefáni Maríussyni.

Eftir að hafa farið í aðlögunarferð í aðrar búðir fjallsins, þar sem þeir fóru upp að Lohtse-hlíðinni svokölluðu sem er í 6.800 metra hæð, eru félagarnir aftur komnir niður í grunnbúðirnar.  Þar munu þeir vera næstu þrjá daga áður en þeir leggja aftur af stað og þá enn ofar á fjallið.

Aðspurður segir Ingólfur að ferðin hafi gengið samkvæmt áætlun. „Við erum með mjög góðri ferðaskrifstofu frá Nýja-Sjálandi, Adventure Consultants, og það er mjög góður aðbúnaður hérna,“ segir Ingólfur og bætir við að þeir félagar hafi verið búnir að undirbúa sig mjög vel fyrir leiðangurinn.

Stopult samband

Ingólfur var með símann opinn í örfáar klukkustundir fyrr í dag og þá gafst mbl.is tækifæri til að heyra í honum hljóðið og fá fréttir af ferðalaginu. Þeir Ingólfur og Guðmundur eru venjulega með slökkt á símanum, bæði vegna þess að sambandið er mjög stopult og einnig vegna þess að rafhlöðurnar endast aðeins í skamman tíma í kuldanum.

„Við komum í gærmorgun niður úr dalnum, eins og maður segir, þ.e. Khumbu-dalurinn sem gengur upp að Lohtse og að sjálfu fjallinu - Everest - og var farið í búðirnar þar. Það er fimm daga ferð og hún kláraðist í gær.“

Aðfararnótt föstudags verður aftur lagt af stað og þá verður farið enn hærra og í þriðju búðirnar sem eru í um 7.500 metra hæð. „Við sofum þar í eina nótt - eða reynum að sofa skulum við segja,“ segir Ingólfur.

Hver einasti maður hóstandi

„Það er gríðarlegur munur á hita á nóttu og degi, og miklar pestir, hálsbólgur og hitt og þetta sem maður þarf að glíma við,“ segir hann varðandi aðstæður. Hann bætir við að loftið sé mjög þurrt og þar af leiðandi sé hver einasti maður hóstandi á göngu.

Í dag er einn mánuður liðinn frá því þeir Ingólfur og Guðmundur lögðu af stað til Nepal. „Við fórum 30. mars þannig að það er farið að halla á seinni hlutann. Núna er seinni aðlögunarferð framundan og maður tekur bara eitt skref í einu. Hún verður aðeins styttri eða fjórir dagar. Hún klárast á þriðjudaginn næsta. Ef það gengur allt saman eftir þá er þessu aðlögunarferli lokið. Þá er bara að safna kröftum.“

Þýðir ekkert að djöflast áfram

Ingólfur segir að stefnt sé að því að gera það í bæ sem er um 1.000 metrum fyrir neðan grunnbúðirnar. Þar muni menn hvílast í þrjá daga áður en gerð verður tilraun til að komast upp á topp Everest-fjalls, sem er 8.848 metrar á hæð.

„Í kringum 10. eða 12. maí þá á maður að vera orðinn klár í slaginn þegar kallið kemur.“ Allt fer þó eftir veðri.

„Það þýðir ekkert að vera sterkur og vera að djöflast í þessum aðlögunarferðum. Þú verður að spara kraftana og vera eins latur og þú mögulega getur, því að þetta er ofsalega lýjandi,“ segir Ingólfur. Hann tekur undir það að það sé algjört lykilatriðið að láta skynsemina ráða för.

Þá segir Ingólfur að það sé ótrúlegt að fylgjast með sjerpunum sem aðstoða leiðangurinn, en alls eru þrír leiðsögumenn. „Þeir leggja línur hérna út um allt og bera byrðarnar. Maður er að mæta mönnum sem eru kannski með 20 til 30 kíló á bakinu og eru að labba jafn hratt eða jafnvel hraðar en maður sjálfur,“ segir Ingólfur.

Slasaðist við ísklifur

Spurður út í hópinn sem ætlar sér að komast á tindinn, segir Ingólfur: „Það eru níu karlar í þessu og ein kona, en konan slasaðist því miður fyrir um hálfum mánuði. Við vorum þá við ísklifuræfingar í Khumbu-jöklinum sem grunnbúðirnar standa á. Grunnbúðirnar standa á skriðjökli þær eru við þetta alræmda ísfall sem er eiginlega hættulegasti hluti leiðarinnar. Það eru hættulegra heldur en að fara upp á sjálfan tindinn. Þar er hæðarhækkunin 6-700 metrar og skriðjökull allan tímann. Og það eru bara hangandi ísblokkir - tveggja til þriggja hæða fjölbýlishús - sem geta hrunið á hverri stundu og maður er að labba undir þessu,“ segir Ingólfur.

Af þeim sökum er lagt af stað í leiðangra um miðja nótt þegar kaldast er en þá er minni hætta á ísinn hreyfist.

„Það þýðir ekkert að vera hugsa um þetta. Þú getur alveg orðið geðveikur á því,“ segir Ingólfur að lokum.

Nánar um ferðalagið.

Everest-fjall er tignarlegt að sjá.
Everest-fjall er tignarlegt að sjá. AFP
Ingólfur Geir Gissurarson og Guðmundur St. Maríusson ætla að klífa …
Ingólfur Geir Gissurarson og Guðmundur St. Maríusson ætla að klífa Mount Everest, hæsta tind heims mbl.is/Styrmir Kári
Fjallið er 8.848 metrar á hæð.
Fjallið er 8.848 metrar á hæð. AFP
Everest-fjall séð frá Indlandi.
Everest-fjall séð frá Indlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert