Formenn hittust á leynifundi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson sitja nú á fundi, …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson sitja nú á fundi, samkvæmt heimildum, og ræða um stjórnarmyndun þó formlegar viðræður séu ekki hafnar. Ekki er vitað hvar fundurinn fer fram. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mikil leynd hefur ríkt yfir fundarhöldum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins um ríkisstjórnarmyndun.

Sigmundur Davíð fékk í gær formlegt stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands og hefur nú fundað með öllum formönnum stjórnmálaflokkanna á Alþingi en fundur hans og Bjarna stendur nú yfir, samkvæmt heimildum úr herbúðum beggja flokka.

Ekki hefur þó fengist upplýst hvar fundurinn eigi sér stað, hvenær hann hófst eða hvenær búast megi við að honum ljúki.

Upplýst var að Sigmundur Davíð hyggist ekki ræða við fjölmiðla í kvöld um næstu skref sín við stjórnarmyndun, en hann mun ætla að fara yfir næstu leiki í stöðunni í kjölfar fundar með Bjarna og má hugsanlega vænta einhverra tilkynninga á morgun um við hvern eða hverja Sigmundur Davíð hyggist formlega hefja stjórnarmyndunarviðræður.

Ekki voru nein tímamörk á því umboði sem forseti veitti formanni Framsóknarflokksins, en þeir munu ætla sér að hittast í lok næstu viku og ræða stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka