Fátækt fólk í hrakningum á Íslandi

Húsnæði Hjálpræðishersins
Húsnæði Hjálpræðishersins mbl.is/Árni Sæberg

Fjórir Rúmenar sem Stefán Pálsson, sagnfræðingur, reyndi að aðstoða á þriðjudag virðist ekki hafa fengið lausn sinna mála eftir því sem Stefán kemst næst en þeir áttu hvorki fyrir mat né gistingu þegar hann reyndi að aðstoða þá.

Stefán skrifaði um Rúmenana á vef sinn í gærkvöldi og þegar mbl.is ræddi við hann í dag hafði hann frétt af Rúmenum og að þeir væru enn í reiðileysi.

Gistiheimili Hjálpræðishersins í Kirkjustræti er lokað yfir vetrartímann en fátækt fólk hefur löngum getað leitað eftir aðstoð hjá Hjálpræðishernum þegar fýkur í önnur skjól.

Stefán var staddur á skrifstofu VG við Suðurgötu á þriðjudag þegar Rúmenarnir komu þar inn í leit sinni að Hjálpræðishernum. Þegar ljóst var að þar var enga aðstoð að fá fyrr en í júnímánuði spurði einn fjórmenninganna Stefán að því hvort hann vissi um vinnu.

„Ungur maður dró fram velkt, tölvuprentað blað og rétti mér. Hjartað sökk við lesturinn og ég sá strax að þetta gæti orðið langur eftirmiðdagur.

 Á miðanum stóð efnislega: Við erum frá Rúmeníu og erum heimilislaus og atvinnulaus. Við erum komin hingað til að fá vinnu, komast í húsnæði og skapa okkur framtíð, því í heimalandi okkar höfum við ekkert. – Þessi boðskapur var meitlaður í þrjár stuttar línur og væntanlega skrifaður með aðstoð einhvers annars, því þótt málfarið væri einfalt var textinn málfræðilega réttur og eðlilegur.

Þau voru fjögur. Ungur maður sem gat talað hrafl í ensku og lét í það minnsta eins og hann skildi hana vel. Eldri maður, sem sá ungi kynnti síðar sem föður sinn. Sá reyndi talsvert að tjá sig en ég skildi lítið. Með þeim voru gömul kona og maður, sem ég giskaði á að væru afinn og amman. Þau skildu ekkert af því sem fram fór og voru sýnilega örþreytt. Farangurinn báru þau í poka sem var tveggja manna tak og þremur lasburða bakpokum. Gamla konan bar stærsta pinkilinn og það virtist hin sjálfsagða skipan mála. Hún var eins og staðalmyndin af gamalli sveitakonu frá Balkanskaganum,“ skrifar Stefán en hann og aðrir á skrifstofu VG könnuðu hvort hægt væri að veita fólkinu aðstoð.

Hvergi neina aðstoð að fá

„Rauði krossinn var fyrsti kostur. Starfsmaðurinn í útlendingamálunum var reyndar veikur heima, en vinnufélagar hans lofuðu að kanna hvaða leiðir væru færar í stöðunni og hringja aftur. Á meðan höfðum við samband við Hjálpræðisherinn og fengum staðfest að Herkastalinn sé í dag einungis rekinn sem farfuglaheimili á sumrin og að Hjálpræðisherinn hefði engin úrræði. Okkur var bent á að í kaffistofu Samhjálpar gæti fólkið fengið að borða, en hún væri reyndar við það að loka í dag.

Rauði krossinn hringdi aftur og staðfesti það sem mig grunaði svo sem, að Rúmenía væri á evrópska efnahagssvæðinu og Rúmenar gætu því farið hér um frjálsir ferða sinna og reynt að finna sér vinnu, en hér væru þeir algjörlega á sína eigin ábyrgð. Ef til vill mætti þó reyna að tala við Alþjóðahúsið, bætti RKÍ-starfsmaðurinn við.

Starfsmaður Alþjóðahússins tók í sama streng, en benti mér þó á hina og þessa aðila sem reynandi væri að tala við. Þar var einkum um að ræða borgarstarfsmenn tengda Mannréttindaskrifstofu og úr félagsmálageira borgarinnar. – Milli símtala kom ungi maðurinn til mín og spurði mig vongóður hvort það væri ekki auðvelt að fá vinnu á Íslandi? Ég muldraði eitthvað flóttalega og sagðist þurfa að hringja meira.

Í ráðhúsinu fékk ég sömu upplýsingar: Samhjálparkaffistofan væri opin að deginum til, þar gæti fólk fengið að borða – og líka á öðrum stöðum. Enginn sylti í hel á Íslandi, sem betur fer. Varðandi gistingu hefði borgin engin ráð. Ef barn hefði verið í hópnum hefði málið horft öðru vísi við, en þetta væru fullorðnir útlendingar sem yrðu að bera ábyrgð á sér sjálfir. Gistiskýlin fyrir útigangsfólkið væru kannski möguleiki, þó líklega yrði þeim vísað þaðan úr því að þau væru útlendingar – í það minnsta hefðu Reykvíkingar forgang að plássunum. Konan frá borginni spurði mig hvort þau ættu ekki einhverja peninga? Ég sagðist ekki vita það með vissu, en væri ekki bjartsýnn. Vonandi lumuðu þau á einhverjum aurum.

Enginn skyldi ætla að konan frá Mannréttindaskrifstofu borgarinnar hafi ekki haft samúð. Allir sem ég hafði rætt við í þessu símamaraþoni voru miður sín yfir sögunni, sem þau gerðu sér grein fyrir að gæti aldrei endað vel. Ég var orðinn svo niðurdreginn að konan aumkaði sig yfir mig og bauðst til að taka á móti okkur í anddyri Ráðhússins,“ skrifar Stefán.

 Í ráðhúsinu kom í ljós að fjórmenningarnir ættu enga peninga, einungis þrjár útlenskar smámyntir. Því ákvað Stefán að leita til kaþólsku kirkjunnar en Rúmenarnir höfðu byrjað í Hallgrímskirkju þar sem þau fengu miða með nafni og heimilisfangi Hjálpræðishersins. Í ljós kom að kaþólska kirkjan gat ekkert gert fyrir fólkið sem var orðið örmagna af þreytu og hungri.

Stefán benti fólkinu á að kanna hvort það gæti fengið aðstoð hjá aðventistakirkjunni eða lögreglunni og að Samhjálp myndi gefa þeim að borða. Stefán hefur ekki hitt Rúmenana síðan en frétt af þeim þar sem þeir voru enn í reiðileysi. Hann veltir fyrir sér stöðu útlendinga sem hingað koma og eiga ekki í neitt hús að venda.

Missti vonina um betra líf

„Hvað rekur fólk til þess að trúa sögum um að á Íslandi sé paradís fyrir allslausa útlendinga, sem fái húsnæði, uppihald og vinnu við það eitt að mæta á svæðið? Og ekki bara trúa sögunum, heldur leggja allt undir og halda til Íslands með aleiguna í nokkrum pinklum…

Hverju ætli þetta fólk hafi kostað til svo það kæmist hingað í leit að draumum sem engin innistæða reyndist fyrir? Tók maðurinn sem seldi þeim hugmyndina kannski drjúga þóknun í eigin vasa fyrir að útvega þeim farseðlana?

 Og hvað gerist næst? Ætli þau hafi endað á lögreglustöðinni og í kjölfarið hafi eitthvert opinbert vald gengið í að koma þeim úr landi? Hírðust þau úti um nóttina eða komu sér inn í mannlaust hús, stigagang í fjölbýlishúsi eða annað slíkt? Munu þau reyna að þrauka hérna, t.d. með betli – og við fáum næst að lesa um skipulagða útgerð rúmensku mafíunnar á atvinnubetlurum hér á landi?

Eða mun einhver stinga upp á að þau gefi sig fram við yfirvöld útlendingamála og segist vera ofsótt í heimalandinu – sígaunar til að mynda? Þá væru þau komin inn í tiltekið kerfi sem myndi hýsa þau og fæða uns þau yrðu send aftur úr landi. Þannig gætu stjórnendur útlendingamála sannfærst enn frekar um tilvist hælisleitendatúrismans ógurlega.

Væntanlega fæ ég aldrei að vita málalyktir og væntanlega hitti ég aldrei aftur strákinn sem ég gleymdi að spyrja að nafni, en horfði á missa vonina um nýtt og betra líf,“ skrifar Stefán.

Hjálpræðisherinn er oft eina skjól þeirra sem minna mega sín
Hjálpræðisherinn er oft eina skjól þeirra sem minna mega sín mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka