Svona lítur Sigur Rós út í Simpsons

„Þetta var rosalega skemmtilegt - óvænt en skemmtilegt,“ segir Georg Holm, bassaleikari hljómsveitarinnar Sigur Rósar, en sveitin verður í stóru hlutverki í þætti 24. þáttaraðarinnar af hinum gríðarlega vinsælu bandarísku sjónvarpsþáttum The Simpsons. Tveir þættir verða sýndir í Bandaríkjunum þann 19. maí og kemur Sigur Rós fram í öðrum þeirra. 

Sigur Rós semur alla tónlist þáttarins og mun að auki koma fram í honum - í hinum þekkta Simpsons-anda. 

Sigur Rós samdi tónlistina baksviðs á tónleikaferðalagi sínu. „Þetta tók nokkra daga,“ segir Georg. Hann segir þetta í fyrsta sinn sem hljómsveit er fengin til að semja alla tónlist þáttarins. Sigur Rós skoraðist að sjálfsögðu ekki undan og frumsamdi efni fyrir þáttinn.

„Við erum búnir að sjá þáttinn og erum mjög ánægðir með útkomuna,“ segir Georg.

Í þættinum verður fjallað um ferðalag nokkurra persónanna til Íslands. Þátturinn segir frá því þegar Homer, Moe, Lenny og Carl kaupa saman lottómiða en Carl stelur honum og flýr til „heimalandsins“, Íslands. Hefst þá eftirför hinna þriggja. 

Georg segir mjög gaman að sjá sjálfan sig teiknaðan í anda Simpsons. „Þetta er bara draumur í dós.“

Spurður hvort hann sé mikill aðdáandi Simpsons svarar hann um hæl: „Eru það ekki allir?“

Þættirnir um Simpsons-fjölskylduna hafa verið framleiddir í 24 ár. Fjöldi þekktra hljómsveita og manna hefur komið fram í þáttunum á þeim tíma. Þeirra á meðal eru Rolling Stones, Elton John, Lady Gaga og Paul McCartney.

Síðasta þáttaröðin verður sýnd frá og með næsta hausti og hafa framleiðendur fullyrt að fleiri þættir verði ekki framleiddir eftir það.

Fréttin um að Sigur Rós muni koma fram í lokaþættinum hefur vakið mikla athygli erlendra fjölmiðla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert