Skýrsla endurskoðanda Deloitte sem send var Exista og hún svo notuð sem staðfesting á hlutafjárhækkun félagsins var til umfjöllunar eftir hádegið þegar aðalmeðferð í máli gegn Lýð Guðmundssyni og Bjarnfreði Ólafssyni hélt áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Misskilnings gætti um efni hennar og form.
Lýð, sem var stjórnarformaður Exista, er gefið að sök að hafa vísvitandi brotið gegn ákvæðum um greiðslu hlutafjár með því að greiða minna en nafnverð fyrir nýtt hlutafé í Exista í desember árið 2008. Nafnvirði hlutanna var 50 milljarðar, en lagður var fram einn milljarður króna fyrir hlutina. Slíkt gengur gegn 1. mgr. 16. gr. laga um hlutafélög en þar segir að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnvirði.
Fyrstur til að gefa skýrslu eftir hádegi var endurskoðandi hjá Deloitte sem skrifaði skýrslu að beiðni Exista. Hann sagði forsvarsmenn Exista hafa leitað til Deloitte til að gera sérfræðiskýrslu en slík skýrsla er áskilin samkvæmt hlutafélagalögum þegar kemur að hlutafjáraukningu félaga.
Endurskoðandinn Hilmar Alfreðsson sagði það hins vegar hafa komið skýrt fram á fundum með fulltrúum Exista að Deloitte myndi aldrei skrifa upp á hlutafjáraukninguna þar sem hún færi í bága við 16. grein hlutafélagalaga. Hins vegar gæti Deloitte staðfest virði einkahlutafélagsins Kvakks og virði Exista.
Verðmatið var sent Exista en í formi skýrslu og í raun í formi sérfræðiskýrslu. Um leið og skýrslan barst var hún send með tilkynningu til fyrirtækjaskráningar um hlutafjáraukninguna, og þá sem sérfræðiskýrsla. Fyrirtækjaskráning gerði ekki athugasemdir við skýrsluna eða tilkynninguna og gekk hlutafjáraukningin í gegn, þar til hún var afturkölluð hálfu ári síðar.
Hilmar sagðist telja að skýrslan sem hann sendi Exista yrði aðeins notuð til staðfestingar við stjórn Exista á verðmati Kvekks og Exista. „Við vorum mjög ósáttir þegar við sáum þetta. Þessi skýrslu átti ekki að nota til að koma 50 milljarða hluta hlutafjáraukningu í gegnum fyrirtækjaskrá,“ sagði Hilmar.
Hilmar var spurður út í form skýrslunnar en yfirskrift hennar var Skýrsla endurskoðanda vegna hlutafjárhækkunar. Hann segir að lögfræðingur hjá Deloitte hafi sett skýrsluna upp eftir stöðluðu formi. Útlitið hefði hins vegar ekki átt að skipta máli þar sem texti skýrslunnar bendi ekki til þess að um sérfræðiskýrslu hafi verið að ræða.
Hann þvertók fyrir það að skýrslan gæti talist vera sérfræðiskýrsla samkvæmt lögum um hlutafélög.
Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte, kom einnig fyrir dóminn og sagðist hafa lesið yfir efni skýrslunnar og hvorki gert athugasemd við útlit hennar eða efni. Hann sagði einnig að það hefði komið skýrt fram hjá Deloitte að fyrirtækið gæti ekki skrifað sérfræðiskýrslu þar sem staðfest yrði umrædd hlutafjáraukning.
Bjarnfreður sendi sjálfur inn til fyrirtækjaskráningar tilkynninguna um hlutafjáraukningu Exista en hann var og er einn eiganda Logos. Hann sagði í morgun að tilkynningin hefði verið 100% rétt. Hann hafi fengið sérfræðiskýrsluna senda frá Hilmari og í tölvupóstinum segir berum orðum að um sérfræðiskýrslu sé að ræða. Hann hafi því sent hana með til fyrirtækjaskrár í góðri trú.
Þá sagði Bjarnfreður að starfsmenn fyrirtækjaskráningar hefðu brugðist hlutverki sínu en þeir skráðu hlutafjáraukninguna án þess að gera nokkrar athugasemdir.
Tveir starfsmenn Logos gáfu einnig skýrslu en þeir komu að málinu. Báðir sögðu þeir að tölvubréfið frá Deloitte og útlit skýrslunnar bentu til þess að um sérfræðiskýrslu væri að ræða. Sendingin hafi verið í fullkomnu samræmi við hefðbundnar sendingar endurskoðenda þegar kemur að hlutafjáraukningu félaga.
Bogi Pálsson sem sat í stjórn Exista á umræddum tíma gaf einnig skýrslu. Hann rifjaði upp fund þar sem hlutafjáraukningin var rædd og að þar hafi komið fram að Exista hafi fengið sérfræðimat frá endurskoðanda Deloitte um að leiðin væri fær og lögleg.
Fyrri degi aðalmeðferðarinnar lauk á fimmta tímanum í dag og heldur áfram í fyrramálið.