Fjórir grunaðir um akstur undir áhrifum

Fjórir voru teknir á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. 

Um klukkan hálf tólf var ökumaður handtekinn á Hringbraut, grunaður um ölvun við akstur. Hann var látinn laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku. Skömmu fyrir klukkan hálf tvö var tilkynnt um umferðaróhapp á Seltjarnarnesi, en þar hafði bifreið verið ekið á ljósastaur. Ökumaðurinn var handtekinn, grunaður um ölvun við akstur. Hann slasaðist ekki við áreksturinn, en var færður í fangaklefa og verður vistaður þar uns ástand hans lagast og hægt verður að ræða við hann, eins og segir í tilkynningu frá lögreglu.

Um svipað leyti var bifreið stöðvuð í Breiðholti og ökumaður hennar handtekinn, en hann var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda, en þeim hafði hann áður verið sviptur. Hann var látinn laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku.

Skömmu eftir klukkan þrjú í nótt var bifreið stöðvuð í austurborginni og ökumaður hennar handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var látinn laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að tíu hafi verið vistaðir í fangageymslu í nótt, þar af séu sjö heimilislausir sem eigi ekki í önnur hús að venda og hafi sjálfir óskað eftir gistingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert