Þór Vigfússon látinn

Þór Vigfússon
Þór Vigfússon Af vef DFS

Þór Vigfússon, fyrrverandi skólameistari, andaðist í gær, sunnudaginn 5. maí, 77 ára að aldri. Greint er frá andláti hans á fréttavefnum DFS.

Þór var fæddur á Þórshamri í Sandvíkurhreppi, síðar Selfossi, 2. apríl 1936. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1955 og hélt síðan til Þýskalands og nam hagfræði við Hochschule für Ökonomie í Berlín. Hann lauk Diplom Ökonom, með sérgrein í milliríkjaviðskiptum, 1961. Við heimkomu vann Þór sem skrifstofustjóri hjá Sameiningarflokki alþýðu - Sósíalistaflokknum og sem starfsmaður verslunarsendinefndar Þýska alþýðulýðveldisins. Hann hóf kennslu við Héraðsskólann á Laugarvatni 1963 og kenndi við Menntaskólann að Laugarvatni 1964-70, við Menntaskólann við Tjörnina, síðar Sund, 1970-83 og var konrektor skólans 1975-78. Hann var skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 1983-94 og kennari til ársins 1998. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði frá skólanum árið 1989.

Þór var virkur í þjóðfélagsmálum og átti sæti nokkrum sinnum í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1970-80, sat á Alþingi sem varaþingmaður 1974, var borgarfulltrúi í Reykjavík 1978-80 og formaður umferðarnefndar. Hann lauk prófi í svæðisleiðsögn frá Farskóla Suðurlands 1993 og átti þátt í stofnun Draugasetursins á Stokkseyri og var í Skálafélagi til endurbyggingar og varðveislu Tryggvaskála. Þór var aðalhöfundur Árbókar Ferðafélags Íslands, Í Árnesþingi vestanverðu 2003. Eftirlifandi eiginkona hans er Auður Hildur Hákonardóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert