„Við vorum bara kaupendur“

Gestur Jónsson, verjandi Lýðs Guðmundssonar, Lýður og Almar Möller, aðstoðarmaður …
Gestur Jónsson, verjandi Lýðs Guðmundssonar, Lýður og Almar Möller, aðstoðarmaður Gests. mbl.is/Rósa Braga

„Ég er ekki lögfræðimenntaður og get ekki sagt hvernig fara á með svona mál. Við vorum kaupendur að þessum hlutabréfum en ekki útgefendur.“ Þetta sagði Lýður Guðmundsson fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en hann er ákærður fyrir stórfellt brot gegn hlutafélagalögum. Hann neitar sök í málinu.

Fyrri dagur af tveimur í aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn Lýði Guðmundssyni, sem oftast er kenndur við Bakkavör, og Bjarnfreði Ólafssyni héraðsdómslögmanni hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. 

Lýð, sem var stjórnarformaður Exista, er gefið að sök að hafa vísvitandi brotið gegn ákvæðum um greiðslu hlutafjár með því að greiða minna en nafnverð fyrir nýtt hlutafé í Exista í desember árið 2008. Nafnvirði hlutanna var 50 milljarðar, en lagður var fram einn milljarður króna fyrir hlutina. Í ákærunni segir að milljarðurinn hafi í raun komið frá Lýsingu hf., sem var félag í eigu Exista, í formi láns. Upphæðin hafi þá aldrei runnið inn í rekstur Exista heldur var hún geymd á vörslureikningi lögfræðistofu.

Í greinargerð með ákærunni segir að með þessum aðgerðum hafi verið farið þvert gegn ráðleggingu sérfræðinga og brotið gegn ákvæðum hlutafélagalaga um greiðslu hlutafjár. Hlutur annarra hluthafa í félaginu hafi verið þynntur út og þannig hafi Lýður og Ágúst Guðmundsson, bróðir hans, tryggt sér yfirráð yfir Exista.

Aðalmeðferðin hófst á því að Lýður gaf skýrslu. Hann segir að á þessum tíma, stuttu etir efnahagshrunið, hafi Exista lent í miklum erfiðleikum og tapað miklu fé. „Það var mikil ringulreið á þessum tíma. Ég var í stjórn margra félaga og það var verið að reyna bjarga verðmætum.“

Hann segir að stjórnendateymi Exista hafi komið með þá hugmynd að auka hlutafé Exista til að bjarga því sem bjarga mátti. Þar sem aðrir hafi ekki viljað koma að kaupum á hlutafé hafi bræðurnir ákveðið að koma sjálfir með fjármuni til félagsins. Í framhaldinu hafi verið haldinn stjórnarfundur í Exista, sem Lýður hafi ekki setið vegna vanhæfis, og þar samþykkt að ganga til samning við þá bræður.

Þá sagði Lýður að í framhaldinu hafi sérfræðingum verið falið að ganga frá öllum málum, það hafi gengið skammlaust fyrir sig og viðskiptin farið í gegn. Það hafi svo verið þegar bræðurnir lentu í deilum við Kaupþing vegna skuldauppgjörs að stjórnendur bankans hafi ákveðið að reyna bregða fyrir þá fæti. Hent hafi verið öllum upplýsingum til sérstaks saksóknara í von um að hægt væri að ákæra fyrir eitthvað.

Telur að greitt hafi verið sannvirði fyrir hlutinn

Í 1. mgr. 16. gr. laga um hlutafélög segir að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnvirði, og er það ákvæði til að koma í veg fyrir óeðlilega rýrnun hlutafjárins og vernda bæði hluthafa félagsins og kröfuhafa. Sérstakur saksóknari segir í ákæru að með hlutafjáraukningunni hafi verið brotið gegn þessu ákvæði og að brotið sé stórfellt.

Aukningin átti sér stað þannig að félagið BBR ehf., sem er í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssona, skipti á bréfum í Exista fyrir bréf í Kvakki ehf., en Kvakkur var einnig í eigu BBR ehf. Með þessu eignaðist BBR meirihluta í Exista en hlutur Kaupþings banka fór úr um 45% niður í um 10%. Nafnverð hlutarins í Exista var 50 milljarðar en nafnverð hlutanna í Kvakki var 1 milljarður.

Lýður var spurður út í þetta atriði sérstaklega, þ.e. að greitt var minna en nafnvirði hlutanna. „Afstaða mín er ekki önnur en sú að ég tel okkur hafa greitt sannvirði fyrir hlutinn. Það var einnig mat Fjármálaeftirlitsins sem lagði blessun sína yfir viðskiptin. Þarna fengu menn sín verðmæti. En ég er ekki lögfræðimenntaður og get ekki sagt hvernig fara á með svona. Við vorum bara kaupendur að þessum hlutabréfum en ekki útgefendur.“

Fyrsta spurning af fáum sem Gestur Jónsson, verjandi Lýðs, spurði hann var: „Þú ert ákærður fyrir að brjóta vísvitandi gegn ákvæðum 16. greinar um hlutafélög. Er það rétt?“ Og svar Lýðs var stutt og hnitmiðað: „Nei.“

Lýður áréttaði að stjórn Exista hafi gefið út hlutafé, þeir bræður hafi sett milljarð inn í Kvakk og svo urðu skipti á hlutafé í Exista og hlutnum í Kvakki. Fyrir hönd Exista hafi forstjórar félagsins skrifað undir og þeir hafi haft umboð til þess.

Tilkynningin 100% rétt

Bjarnfreður Ólafsson héraðsdómslögmaður er einnig ákærður í málinu en fyrir að hafa vísvitandi skýrt rangt og villandi frá hækkun á hlutafé Exista þegar send var tilkynning til hlutafélagaskrár 8. desember 2008. Þar komi fram að hækkun 50 milljarðar hluta hafi að fullu verið greiddir til félagsins. Lýður er raunar einnig ákærður í þessum lið en hann sagðist ekkert hafa komið að þessari tilkynningu og því urðu spurningar um þann lið fáar.

Við skýrslutöku yfir Bjarnfreði sagði hann lögfræðistofuna Logos hafa tekið að sér að senda fjölda tilkynninga frá Exista í tengslum við þessa hlutafjáraukningu. Þar á meðal hafi verið umrædd tilkynning sem ákært er fyrir. „Hún er 100% rétt. Þetta var ákvörðun félagsins [Exista] að selja hlutina með þessum hætti og þó svo ég sé ekki að segja að það hafi verið rétt ákvörðun var það rétt ákvörðun hjá mér að gera eins og mér var sagt, af umbjóðanda mínum. Exista taldi sig hafa selt þessa hluti gegn sanngjörnu verði og tók ákvörðun um að tilkynna það. Þetta var ákvörðun sem tekin var löglega af félaginu og tilkynningin er rétt.“

Bjarnfreður viðurkenndi þó að efasemdir hafi verið um það innan lögfræðistofunnar að fyrirtækjaskrá myndi fallast á túlkun Exista á 16. gr. laga um hlutafélög og myndi því stoppa ferlið. „Maður ætlar ekki annað þegar hlutafé er hækkað um 50 milljarða að það byggist á mati sérfræðinga, og að opinberir starfsmenn [fyrirtækjaskrár] sinni sinni lagaskyldu. Mér fannst ólíklegt að þeir myndu samþykkja þessa túlkun, því hún var mjög rúm.“

Spurður hvort það hafi ekki gengið gegn sannfæringu hans að senda út tilkynninguna sagði Bjarnfreður: „Ég var ekki sammála þessari túlkun og hélt að það myndi reyna á hana.“ Hann áréttaði að það væri ekkert í tilkynningunni hins vegar rangt.

Gerðu ekki athugasemd við tilkynninguna

Framburður Bjarnfreðs fær stoð í skýrslu Helga Sigurðssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Kaupþings. Helgi sagði rétt að Kaupþing hefði gert athugasemdir við hlutafjáraukninguna, til Kauphallarinnar og fyrirtækjaskráningar, en það hafi ekki verið vegna tilkynningarinnar sjálfrar. „Ég var ekki að gera athugasemd við tilkynninguna heldur hvað átti að gera á grundvell hennar.“

Hann sagði engan vafa hafa leikið á því hvað fólst í tilkynningunni né hvað fólst í hlutafjáraukningunni. Hann fékk hins vegar lítil sem engin viðbrögð frá Kauphöllinni og fyrirtækjaskrá sá heldur enga ástæðu til að bregðast við, þá. Fyrirtækjaskrá brást hins vegar við hálfu ári síðar og endurskoðaði skráninguna.

Fleiri bankamenn hafa gefið skýrslu í morgun, þar á meðal Finnur Sveinbjörnsson, fyrrverandi forstjóri Nýja Kaupþings, fátt markvert kom fram í þeim skýrslum. 

Aðalmeðferðin heldur áfram eftir hádegið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka