„Ef hún kemur sér upp hreiðri þarna og það kemur annað egg þá er hugsanlega mögulegt að koma egginu í hreiðrið án þess að hún ýti því út úr því,“ segir Haukur Snorrason í samtali við mbl.is en hann tók í gærmorgun ljósmynd af álft sem misst hafði úr sér egg á ísilagða Hrísatjörn í Friðlandi Svarfdæla við Dalvík.
Bóndi í nágrenninu fór í gær með heytuggu og setti á sinutoppa sem standa upp úr snjónum nálægt varpstað álftarinnar en hún hefur lengi verpt á þessum slóðum. Þegar rætt var við Hauk hafði álftin hins ekki enn gert sér hreiður úr heyinu.
Haukur segir að álftin hafi eitthvað reynt að eiga við eggið en ekki getað komið því neitt. Það hafi því verið tekið og haldið á því hita í von um að hægt verði að koma því aftur til hennar síðar ef hún kemur sér upp hreiðri. Hinn möguleikinn væri að setja það í útungunarvél og vona að það skilaði árangri.