„Fráleitt að skjóta sendiboðann“

Bjarnfreður Ólafsson.
Bjarnfreður Ólafsson. Morgunblaðið/Rósa Braga

„Það er fráleitt að skjóta sendiboðann,“ sagði Þorsteinn Einarsson, verjandi Bjarnfreðs Ólafssonar lögmanns sem sérstakur saksóknari ákærði fyrir að senda vísvitandi ranga og villandi tilkynningu um hlutafjárhækkun Exista í desember 2008 til fyrirtækjaskrár. Honum hafi aðeins verið falið að senda tilkynninguna í umboði stjórnar Exista.

Hann benti á að framburður 14 einstaklinga fyrir dómi, stjórnarmanna Exista, stjórnenda og starfsfólks, hefði allur verið á þá leið að tilkynningin hafi verið rétt og í samræmi við ákvörðun stjórnar Exista. Sömu einstaklingar hafi borið á sömu lund hjá lögreglu. 

„Minn umbjóðandi sinnti aðeins þeirri skyldu sinni að senda þetta til fyrirtækjaskrár og það gerði hann. Áður sendi hann drög að tilkynningunni til lögfræðinga Exista sem yfirfóru hana og sendu til baka með beiðni um að hún yrði send inn,“ sagði Þorsteinn og bætti að engin rök hafi verið færð fyrir því að beitt hafi verið blekkingum. 

Þá sagði hann það hafa verið ljóst frá upphafi að mistökin hafi legið hjá fyrirtækjaskrá, en af einhverri ástæðu hafi sérstakur saksóknari ekki séð ástæðu til að taka skýrslu af forstöðumanni fyrirtækjaskrár við rannsókn málsins. Ef svo hefði verið hefði forstöðumaðurinn væntanlega upplýst saksóknara um að allt sem kom fram í tilkynningunni væri rétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert