Björgunarsveitir frá Höfn í Hornafirði til Víkur í Mýrdal voru kallaðar út rétt eftir klukkan 16 í dag þegar neyðarkall barst frá Guðna Páli Viktorssyni kajakræðara sem var í vandræðum eftir að hafa fengið á sig brot. Var hann þá staddur utan við Meðallandssand. Guðni Páll er heill á húfi.
Björgunarsveitir fóru af stað á landi og sjó og einnig var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð til, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Skömmu síðar bárust upplýsingar um að Guðni Páll gæti verið kominn upp á land og voru þær upplýsingar staðfestar um kl. 17:20. Hann var þá staddur skammt austur af Skarðsfjöruvita í Meðallandsfjöru. Reyndist hann heill á húfi þegar að var komið. Björgunarsveitum hefur því verið snúið til baka.
Guðni Páll hyggst sigla hringinn í kringum landið en tilgangur ferðarinnar er að safna fé til styrktar Samhjálp.