Kjarráð sinnti ekki rannsóknarskyldu

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður Alþingis telur að kjararáð hafi með úrskurði um laun forstöðumanna ríkisstofnana sem felldur var í júní 2011 ekki fullnægt rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga. Ráðinu hafi borið að rannsaka betur erindi sem Félag forstöðumanna ríkisstofnana sendi ráðinu.

Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að kjararáð hefði ekki tekið efnislega afstöðu til erinda félagsins þar sem sett hafði verið fram beiðni um leiðréttingu launa félagsmanna þess. Erindi FFR voru send kjararáði eftir að ákvæði til bráðabirgða í lögum um kjararáð, sem sett voru í lok árs 2008 og leiddu til lækkunar á launum félagsmanna, féllu úr gildi hinn 1. desember 2010.

Hinn 28. júní 2011 felldi kjararáð úrskurð þar sem niðurstaða meiri hluta ráðsins var sú að launalækkun sú er hafði komið til framkvæmda á árinu 2009, og varðaði m.a. félagsmenn FFR, skyldi að svo stöddu ekki ganga til baka en að laun skyldu hækka til samræmis við nýgerða kjarasamninga á þeim tíma.

Kvörtun FFR byggðist á því að með úrskurðinum væri orðið ljóst að kjararáð hygðist fresta ákvörðun í málinu um óákveðinn tíma og af þeim ástæðum var farið fram á að umboðsmaður Alþingis tæki málið til efnislegrar skoðunar.

Eftir að athugun umboðsmanns á kvörtun FFR hófst kvað kjararáð, hinn 21. desember 2011, upp almennan úrskurð sem varðaði m.a. laun félagsmanna FFR. Þar var m.a. kveðið á um röðun í launaflokka og að fjöldi mánaðarlegra eininga skyldi að meginstefnu vera sá sami frá og með 1. október 2011 og verið hafði fyrir þá lækkun sem kjararáð ákvað með úrskurðum sínum á árinu 2009.

Umboðsmaður Alþingis benti á að eftir 30. nóvember 2010, þegar tímabundin ákvæði til bráðabirgða í lögin runnu sitt skeið á enda, hafi farið um heimildir og hugsanlegar skyldur kjararáðs til að endurskoða og afgreiða beiðnir um endurskoðun launa félagsmanna FFR eftir þeim almennu reglum sem gilda um störf kjararáðs. Með hliðsjón af því auk annarra lagabreytinga sem og að kjararáði höfðu borist erindi er að þessu lutu, m.a. frá FFR, var niðurstaða umboðsmanns sú að kjararáði hafi borið frá þeim tíma að leggja mat á hvort fram væru komnar breytingar sem gæfu tilefni til þess að taka nýjar ákvarðanir um laun þeirra sem heyrðu undir ráðið, þar á meðal hvort tilefni hefði verið til breytinga á launum þeirra forstöðumanna ríkisstofnana sem sætt höfðu lækkun launa frá 1. mars 2009, samkvæmt úrskurði ráðsins vegna ákvæða laga nr. 148/2008 og 127/2009.

Umboðsmaður taldi að skort hefði á að það mál sem kjararáð réð til lykta með fyrrnefndum úrskurði 28. júní 2011, þar á meðal afgreiðsla þess á erindum FFR sem það hafði sent í nóvember og desember 2011 þar sem óskað var eftir að kjararáð endurskoðaði laun félagsmanna, hefði verið rannsakað svo fullnægjandi væri miðað við þær kröfur sem 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gerir, og þeim viðmiðunum sem kjararáði ber að lögum að fylgja við ákvarðanir sínar.

Þá var það niðurstaða umboðsmanns að ákveðnar upplýsingar sem kjararáð hafði aflað frá fjármálaráðuneytinu, og vísað var til í úrskurði ráðsins 28. júní 2011, hafi ekki leyst kjararáð undan því að rannsaka málið með fullnægjandi hætti. Þær upplýsingar höfðu samkvæmt efni úrskurðarins verulega þýðingu við úrlausn málsins. Kjararáð hafi því brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga með því að veita FFR ekki kost á að koma að andmælum vegna þeirra gagna.

Að lokum var það niðurstaða umboðsmanns að ekki yrði séð að það hefði samrýmst þeim reglum um málshraða, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sem kjararáði bar að fylgja í málinu að fresta afgreiðslu erindis FFR í ákvörðun ráðsins hinn 28. júní 2011 með vísan til þess að ekki lægi fyrir hver yrðu afdrif mála vegna breytinga á launum hjá þeim hópi ríkisstarfsmanna sem sættu lækkun launa vegna tilmæla ríkisstjórnarinnar.

Krefjast þess að kjararáð taki málið fyrir að nýju

Félag forstöðumanna ríkisstofnana ræddi álit umboðsmanns á fundi í dag. Í ályktun frá fundinum segir að niðurstaða umboðsmanns sé áfellisdómur á störf kjararáðs sem m.a. lýsa sér í skorti á fullnægjandi gagnaöflun áður en ákvarðanir eru teknar, töfum í málsmeðferð, ógegnsæjum vinnubrögðum og brotum á stjórnsýslulögum.

„Aðalfundurinn felur nýrri stjórn og starfskjaranefnd FFR að fylgja framangreindu áliti eftir og krefja kjararáð um endurupptöku erindis FFR frá árinu 2011. Kjararáði ber að innleiða úrbætur og leiðrétta starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana í samræmi við niðurstöðu umboðsmanns Alþingis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert