Ríkissaksóknari hefur hætt rannsókn á kærumáli Erlu Bolladóttur á hendur lögreglumanni fyrir meint kynferðisbrot um mitt ár 1976, þegar Erla sætti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á Guðmundar- og Geirfinnsmálum, en lögreglumaðurinn starfaði þá sem rannsóknarlögreglumaður og vann að rannsókn málanna.
Í tilkynningu frá embætti ríkissaksóknara segir að með hliðsjón af því sem fram kemur í kæruskýrslu gat sú háttsemi sem þar er lýst varðað almenn hegningarlög. „Ríkissaksóknari tók skýrslur af kæranda og kærða auk þess að fara yfir og kynna aðilum bókanir í dagbók fangelsisins Síðumúla 28 og önnur gögn er tengdust gæsluvarðhaldsvist kæranda. Kærði neitar alfarið sök,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir að ljóst hafi verið frá upphafi að kært kynferðisbrot væri fyrnt.
„Þá liggur fyrir að kærandi tjáði sig ekki við neinn um ætlað kynferðisbrot fyrr en að mörgum árum liðnum, en engin vitni voru að ætluðu broti. Með hliðsjón af framangreindu hefur rannsókn málsins verið hætt með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.“
Erla segist hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á meðan hún var í gæsluvarðhaldi vegna málsins í Síðumúlafangelsinu 1975- '76. Um hafi verið að ræða tvo menn, annar þeirra káfaði á Erlu að næturlagi, hinn nauðgaði henni. Í samtölum við starfshópinn sem vann nýútkomna skýrslu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið nafngreindi hún báða mennina og kærði þann síðarnefnda.