Óvíst hvenær hann verður sendur úr landi

Flóttafólk kemur á ofhlöðnum bát frá ströndum Afríku til ítölsku …
Flóttafólk kemur á ofhlöðnum bát frá ströndum Afríku til ítölsku eyjunnar Lampedusa. AFP

„Það er ekki komin dagsetning á brottflutninginn, en formlega er málið komið á endastöð,“ segir Sigurður Árnason lögmaður samkynhneigðs manns frá Nígeríu sem neitað var um hæli hér á landi.

Mál hans fékk aldrei efnislega meðferð í kerfinu hér og ekki er útlit fyrir annað en að hann verður sendur aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Þar tekur óvissan við.

Fangelsi eða dauðarefsing vegna samkynhneigðar

Maðurinn heitir Martin en óskar þess að vera ekki getið með fullu nafni þar sem hann óttast að það kunni að valda honum hættu ef hægt verður að rekja mál hans hér í Nígeríu verði hann sendur aftur þangað.

Martin flýði frá heimalandi sínu Nígeríu fyrir um áratug eftir að hafa sætt ofsóknum fyrir að vera samkynhneigður. Kynlíf milli tveggja karlmanna er bannað með lögum í landinu, í suðurríkjum þess getur refsing við því numið allt að 14 ára fangelsi en í suðurhluta landsins þar sem sjaríalög hafa sumstaðar verið innleidd getur dauðarefsing með grýtingu legið við samkynhneigð.

„Við höfum miklar áhyggjur af þessu máli og erum að skoða það,“ segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna 78. Samtökin hafa komið á fundi með Martin og hyggjast beita sér fyrir máli hans eins og möguleiki er.

Fékk ekki efnislega meðferð hér

Fá úrræði eru þó eftir gagnvart kerfinu. Martin var hafnað um hæli á Ítalíu eftir að hafa velkst þar um í kerfinu og búið til skiptis á götunni og í neyðarskýlum fyrir flóttamenn í 9 ár. Hingað til lands kom hann í júlí í fyrra á fölsuðu vegabréfi og var handtekinn á Keflavíkurflugvelli.

Sigurður bendir á að mál hans hafi aldrei fengið efnislega meðferð hér enda hafi Útlendingastofnun litið svo á að ítölsk stjórnvöld bæru ábyrgð á málinu þar sem hann kom fyrst inn á Schengen svæðið þar. Á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar ákvað Útlendingastofnun að senda hann aftur til Ítalíu og innanríkisráðuneytið staðfesti þá ákvörðun.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvað gerist en það er líklegt að honum verði flogið til Mílanó og að þar muni hann sem sagt dvelja á meðan einhver skref verði tekin í málinu þar,“ segir Sigurður.

Miklir gallar á kerfinu í Ítalíu

Ítalía er ásamt Grikklandi það land þar sem hvað flest flóttafólk frá Afríku á fyrstu viðkomu og eru aðstæður hælisleitenda þar víða mjög slæmar. Í norsk/svissneskri skýrslu frá árinu 2011 segir að stjórnvöld á Ítalíu ráði illa við álagið og það hafi sýnt sig að mannréttindi flóttafólks séu ekki tryggð þar.

Þetta sé nokkuð sem stjórnvöld í Noregi, Sviss og öðrum Evrópulöndum verði að hafa í huga áður en tekin sé ákvörðun um að senda hælisleitendur aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Raunin sé hins vegar sú að stjórnvöld í þeim löndum sem senda hælisleitendur til baka kanni sjaldan eða aldrei í hvaða aðstæðum þeir lenda, og ítölsk stjórnvöld geti ekki tryggt að við endurkomi til landsins sé þeim tryggð mannsæmandi aðstæður.

Sigurður segir alveg ljóst að aðstæður hælisleitenda séu víða mjög slæmar á Ítalíu og margir séu á vergangi. „Það er það sem ég hef helst gagnrýnt, að þessir stóru gallar á hæliskerfinu í Ítalíu eru alveg þekktir en samt er þetta endursendingakerfi látið njóta vafans.“

Samtökin No Borders Iceland hafa í vikunni staðið fyrir hópsendingum á beiðni til innanríkisráðuneytisins, Útlendingastofnunar og þingmanna fyrir því að brottvísun Martins verði stöðvuð.

Sem fyrr segir hefur Martin ekki verið tilkynnt hvenær hann verður sendur úr landi og segir Sigurður að það kunni að verða með stuttum fyrirvara.

Flóttafólk frá Norður-Afríku bak við rimla á ítölsku eyjunni Lampedusa.
Flóttafólk frá Norður-Afríku bak við rimla á ítölsku eyjunni Lampedusa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka