Uppljóstrunarvefurinn Wikileaks og íslenska tölvufyrirtækið Datacell undirbúa nú skaðabótamál á hendur greiðslukortafyrirtækinu Valitor fyrir að hafa komið í veg fyrir að kortagreiðslur bærust til Wkileaks. Þetta staðfestir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Wikileaks og Datacell, í samtali við mbl.is.
Hæstiréttur dæmdi Valitor 24. apríl síðastliðinn til þess að koma greiðslunum til Wikileaks. Fyrirtækið fékk 15 daga til þess en að öðrum kosti yrði það að greiða 800 þúsund krónur í dagsektir. Sveinn Andri segir að opnað hafi verið fyrir greiðslurnar í gær í kjölfar þess að Visa Europe, samstarfsaðili Valitors, hafi lýst því yfir að ekkert yrði aðhafst til þess að stöðva þær. Síðan í gær hafi umbjóðendur hans verið að gera ýmsar tæknilegar ráðstafanir til þess að geta tekið við þeim. „Greiðslurnar eru væntanlega farnar að berast bara í þessum töluðu orðum.“
Hann segir að skaðabótamálið sé næsta skref. Verið sé að reikna þann skaða sem Valitor hafi valdið með ákvörðun sinni. Hann segir að um verði að ræða skaðabótakröfu sem hlaupa muni á milljörðum króna.