Lúinn eftir langan róður

Guðni Páll sést hér róa inn til Eyja í gærkvöldi.
Guðni Páll sést hér róa inn til Eyja í gærkvöldi. mynd/Óskar Pétur Friðriksson

„Þetta gekk mjög vel. Veður var hagstætt en það var stórsjór. Það var gaman að fá fylgdarbát en Gunnar Ingi Gunnarsson reri með mér frá Holtsósi undir Eyjafjöllum,“ segir kajakræðarinn Guðni Páll Viktorsson sem kom til Vestmannaeyja um áttaleytið í gærkvöldi. Hann var Vestmannaeyingum þakklátur fyrir góðar móttökur.

Gærdagurinn var langur en Guðni reri tæplega 70 kílómetra, frá Vík til Vestmannaeyja. „Ég er orðinn lúinn núna og þetta verður kærkomin hvíld á morgun. Ætli ég nýti ekki tímann í að borða, en ég hef ekki mikið borðað síðustu daga, sofa og skoða eyjuna. Það verður gott að fá að sofa inni en ég hef átt aðeins erfitt með svefn undanfarið,“ segir Guðni Páll, sem mun mestmegnis sofa í tjaldi í siglingunni kringum Ísland.

Guðni Páll er á mun hraðskreiðari bát en félagi hans, Gunnar Ingi sem fylgdi honum. Spurður hvort þeir hafi náð að fylgjast að, segir Guðni Páll að hann hafi þegar verið búinn að róa um 40 kílómetra þegar Gunnari Ingi hafi slegist í för með honum, því hafi þetta jafnast út.

Hann hlær við þegar hann er spurður hvort brotsjórinn sem hann fékk á sig fyrr í vikunni hafi verið eins og þriggja hæða hús. Segir vini sína kunna að orða hlutina, en viðurkennir að þetta hafi vissulega verið ógnvænlegt.

Í dag verður kynning á Kaffi Kró í Eyjum kl. 11 þar sem boðið verður upp á léttar veitingar. Guðni Páll verður með kynningu á sjálfum sér, verkefninu, sem kallast Lífróður Samhjálpar, og búnaðinum.

thorunn@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert