Stendur ekki til að tefla lífríki Mývatns í hættu

Jarðhitinn undir Námafjalli nýtist þar, en á fjallinu eru mjög …
Jarðhitinn undir Námafjalli nýtist þar, en á fjallinu eru mjög litskrúðugir hverir eru í Námafjalli, en jarðhitinn þar undir verður nýttur í 45 MW virkjun í Bjarnarflagi. mbl.is/Rax

Mikilvægt er að gæta varúðar við allar framkvæmdir í nágrenni Mývatns, enda náttúrufarið sérstætt. Þetta sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á opnum kynningarfundi fyrir íbúa Skútustaðahrepps í dag. Ekki standi til að tefla lífríki Mývatns í hættu með nýrri Bjarnarflagsvirkjun.

Yfir 90 manns sóttu fundinn sem Landsvirkjun bauð til í Reykjahlíðarskóla í dag en þar greindu Hörður og fleiri fulltrúar Landsvirkjunar frá undirbúning og rannsóknum vegna Bjarnarflagsvirkjunar og mögulegum áhrifum af aukinni raforkuframleiðslu á svæðinu.

Árni Einarsson frá Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn kynnti jafnframt, að beiðni Landsvirkjunar, rannsóknir á lífríki Mývatns og möguleg áhrif Bjarnarflagsvirkjunar.

Útboðshönnun á lokastigi

Í Bjarnarflagi er ein elsta nýtingarsaga háhitasvæðis á íslandi og hefur nýting jarðhitavökva á svæðinu um hálfa öld jafngilt 15-45 MW raforkuframleiðslu. Núverandi Bjarnarflagsstöð hefur verið í rekstri frá árinu 1969, í yfir 40 ár, en Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningi nýrrar virkjunar frá árinu 1992.

Í nýsamþykktri rammaáætlun Alþingis, um vernd og orkunýtingu landsvæða, er Bjarnarflagsvirkjun sett í nýtingarflokk. Útboðshönnun og útboðsgagnagerð fyrir nýja 45 MW virkjun þar nú á lokastigi.

Stjórn Landsvirkjunar hefur ekki tekið ákvörðun um hvort og hvenær verður sótt um virkjunarleyfi fyrir nýja virkjun í Bjarnarflagi en það verður ekki gert fyrr en orkusölusamningar liggja fyrir og nýrri úttekt á gildandi mati á umhverfisáhrifum er lokið.

Landsvirkjun er í stakk búin að hefja virkjunarframkvæmdir hvort heldur sem er í Bjarnarflagi eða á Þeistareykjum þegar tilskilin leyfi liggja fyrir og samningum um orkusölu vegna iðnaðaruppbyggingu á Bakka við Húsavík verður lokið.

Hugað á áhrifum á grunnvatn og loftgæði

Fram kemur í frétt á vef Landsvirkjunar um fundinn í dag að fyrirtækið hafi staðið fyrir ítarlegum umhverfisrannsóknum og vöktun á ýmsum umhverfisþáttum, s.s. gróðurfari, dýralífi, hveravirkni og loftgæðum. Sérstaklega hefur verið hugað að áhrifum á grunnvatn.

Mælingar á styrk brennisteinsvetnis í Reykjahlíð, sem hafa staðið yfir frá því í febrúar 2011, gefa til kynna að stóran hluta ársins séu áhrif jarðhitanýtingar á loftgæði í Reykjahlíð óveruleg. Unnið er að fjölgun mælistöðva. Landsvirkjun mun haga orkuvinnslu þannig að tryggt sé að styrkur brennisteinsvetnis verði áfram undir reglugerðarmörkum og grípa til viðeigandi mótvægisaðgerða gerist þess þörf.

Að auki er unnið að úttekt á gildandi mati á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar, með aðstoð ráðgjafa, þar sem tekið er tillit til tækibreytinga og reynslu af rekstri jarðvarmavirkjana og umhverfisáhrifum þeirra sem komið hafa fram frá því að Skipulagsstofnun úrskurðaði um allt að 90 MW Bjarnarflagsvirkjun árið 2004.

Undirbúningsframkvæmdum í Bjarnarflagi verður að sögn Landsvirkjunar haldið í lágmarki þar til ákvörðun um nýja virkjun liggur fyrir. Í dag voru íbúum kynntar þær framkvæmdir sem framundan eru, en þær snúa að frágangi framkvæmda sem hófust síðast liðið haust og náðist ekki að ljúka vegna veðurs.

Sú vinna snýr einkum að lagfæringum og frágangi á lögnum í jörðu og yfirborðsfrágangi á byggingareit virkjunar og á lóð Landsvirkjunar í Reykjahlíð.

Öflug borhola í Bjarnarflagi.
Öflug borhola í Bjarnarflagi. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert