Financial Times birtir á morgun aðsenda grein eftir Steingrím J. Sigfússon þar sem hann spyr hvort nokkur stjórnmálamaður geti mætt óraunhæfum væntingum evrópskra kjósenda. Atkvæði hafi verið greidd með skammtíma lífsgæðum frekar en langtíma stöðugleika.
„Stjórnmálamenn í efnahagskreppu suður af Íslandi myndu gefa mikið fyrir árangur eins og okkar. Þó má gera ráð fyrir að þeir myndu ekki kæra sig um þá kosninganiðurstöðu sem ríkisstjórnarflokkarnir hlutu,“ segir Steingrímur í greininni sem birt verður í blaði Financial Times á morgun en birtist á vefnum í kvöld.
Getur nokkur staðið undir væntingunum?
Steingrímur segir að um allan heim sé horft til Íslands sem fyrirmyndar um hvernig bregðast skuli við alvarlegum áföllum í efnahagslífinu en bendir á að alþjóðasamfélagið ætti líka að velta fyrir sér niðurstöðum Alþingiskosninganna.
„Þrátt fyrir að hafa stýrt landinu í gegnum erfitt en árangursríkt bataferli var ríkisstjórnarflokkunum sparkað. Flokkarnir sem var kennt um kreppuna unnu nauman meirihluta. Þetta vekur upp grundvallarspurningu:
Á tímum niðurskurðar og minni hagvaxtar, geta stjórnmálamenn notið hylli án ágóða bóluhagkerfisins? Orðum það öðruvísi: Getur nokkur stjórnmálamaður mætt óraunhæfum væntingum evrópskra kjósenda?“
Niðurstaða kosninganna með ólíkindum
Steingrímur segir að á Íslandi hafi ekki verið gripið til niðurskurðaraðgerða eins og nú sjáist svo víða í Evrópu. Lágtekjuhópar og atvinnulausir hafi verið verndaðir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi, mörgum að óvörum, hrósað Íslandi fyrir að viðhalda norrænu velferðarkerfi.
Ríkisstjórnarflokkarnir misstu 27,7 af fylgi sínu í kosningunum og bendir Steingrímur á að þetta fylgistap sé það mesta í Íslandssögunni. Flokkarnir tveir sem stuðluðu að því með stefnu sinni að hrun varð á Íslandi standi nú uppi sem sigurvegarar, sem sé með ólíkindum.
„Sumir segja að ríkisstjórnin hafi ekki stært sig nóg af árangri sínum. Óeining í samsteypustjórninni um innleiðingu erfiðra aðgerða var líka áhrifaþáttur. Aðrir segja að ríkisstjórnin hafi reynt að innleiða of margar breytingar of hratt - og það tekur tíma áður en íslensk heimili finna áhrif stefnubreytinganna,“ segir Steingrímur.
„Sannleikurinn er þó sá að umfang verkefnisins og væntinga almennings bar okkur ofurliði.“
Steingrímur segir að kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins feli í sér kunnuglega frasa um efnahagsbata með skattalækkunum og afnámi hafta. Óhóflegar aðgerðir hafi verið boðaðar til að pumpa upp neyslu þegar hagkerfið þurfi í reynd á því að halda að draga úr skuldum ríkissjóðs eftir taumlaust neyslufyllerí á árunum fyrir hrun.
„Atkvæðin voru greidd með skammtíma neyslu, í stað langtíma stöðugleika.“
Uppskrift að endalausum vítahring
Í þessu samhengi segir Steingrímur mikilvægt að velta því upp hvort ríkisstjórnir sem grípi til erfiðra aðgerða til að rétta úr kútnum geti haldið völdum nógu lengi til að fylgja löndum sínum út úr kreppunni, ef þær geta ekki samstundis fært almenningi samskonar lífsgæði og hann naut í bóluhagkerfinu.
„Niðurstöðurnar á Íslandi ættu að leiða til sjálfsskoðunar, ekki bara hjá stjórnmálamönnum heldur líka kjósendum. Eru væntingar okkar raunhæfar? Er eina leiðin til að mæta óseðjandi kröfum um hagvöxt sú að byggja hagkerfið á kviksyndi? Því það er uppskrift að endalausum vítahring af bólum sem þenjast út og springa.“