Flóttamenn sem fórnarlömb pyndinga og ómannúðlegrar meðferðar voru umfjöllunarefni á ráðstefnu sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík í dag eins og mbl.is hefur greint frá.
Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, fjallaði þar um þá skyldu sem hvílir á ríkjum að sækja þá sem beita pyndingum til saka, ellegar framselja þá til landa sem hyggja á slíka saksókn.
„Bann við pyndingum nýtur sérstakrar stöðu í þjóðarrétti,“ sagði Þórdís. „Þetta er eiginlega „reglan sem aðrar reglur öfunda.“ Hún er mjög rótgróin regla í venjurétti, þannig að jafnvel þótt ríki hafi ekki fullgilt samning SÞ gegn pyndingum þá eru þau rígbundinn af reglunni á grundvelli venjuréttar. Reglan hefur öðlast slíkan sess í þjóðarrétti að kallast „jus cogens"-regla, en slík regla er í raun hafin yfir aðrar reglur þjóðarréttarins, án þess þó að búa til einhverja goggunarröð meðal reglna í þjóðarrétti.“
Þórdís sagði hins vegar að framkvæmd og eftirfylgni væri ábótavant í mörgum ríkjum. Hún sagði alls ekki nóg að pyndingar séu bannaðar, heldur hvíli rík skylda á ríkjum að rannsaka og saksækja fyrir pyndingar sem þau þurfi að heiðra. Hún segir ríki verða að saksækja mál á grundvelli pyndinga ef gerandi í slíkum málum dúkkar upp í lögsögu ríkisins, eða framselja gerandann til ríkis sem mun saksækja.
„Það hvílir mjög rík skylda á ríkjum og þetta er mikil undantekning á lögsögureglum í alþjóðalögum. Þessi regla á sér meðal annars stoð í íslenskum lögum, en hún stendur skrifuð í 6. grein almennra hegningarlaga. Þó hefur ekki mikið reynt á þessar reglur. Framkvæmdin er léleg og atvikum þannig háttað að ekki hefur mikið reynt á þær,“ segir Þórdís.
Hún segir nokkra vakningu eiga sér stað meðal ríkja um að knýja fram þessa skyldu. Mikil vinna félagasamtaka við að vekja athygli á þegar einstaklingar sem grunaðir eru um pyndingar koma inn í lögsögu tiltekinna ríkja hefur skilað árangri að hennar mati, og bendir meðal á Ragnar Aðalsteinsson, en hann hefur reglulega hvatt íslensk stjórnvöld til að sækja kínverska ráðamenn til saka þegar þeir sækja Ísland heim á þessum grundvelli.
Þórdís fjallaði í grófum dráttum um mál Belgíu gegn Senegal. Málsatvik voru þau að fyrrverandi einræðisherra Chad, Hissène Habré, flúði til Senegal. Belgísk stjórnvöld fara fram á að Senegal saksæki einræðisherrann eða framselji hann til Belgíu, sem hyggst saksækja hann fyrir pyndingar. Senegalar bera við að þeir hafi ekki alþjóðalögsögu. Alþjóðadómstóllinn tók ekki mark á þeim vörnum og töldu Senegal skylt að framselja einræðisherrann fyrrverandi til Belgíu, eða saksækja hann fyrir sínum dómstólum án tafar.
Á ráðstefnunni fjallaði Erna Blöndal, lögfræðingur og doktorsnemi í þjóðarétti og alþjóðlegum mannréttindareglum, um þá alþjóðlegu vernd sem flóttamenn njóta gegn pyndingum. Í erindi sínu sagði Erna að blátt bann sé lagt við pyndingum í alþjóðalögum. „Þetta kemur skýrt fram í 3. grein Mannréttindasáttmála Evrópu og 7. grein samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í íslenskum rétti er einnig lagt bann við pyndingum í 1. málsgrein 68. greinar stjórnarskrárinnar,“ segir Erna.
Í 1. grein samnings Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um bann við pyndingum er að finna skilgreiningu á hugtakinu pyndingar, en slíka skilgreiningu er ekki að finna í Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómstólum er eftirlátið að meta hvort meðferð teljist pyndingar í skilningi þess samnings. Samkvæmt samningi SÞ kemur fram að meðferð þarf að ná ákveðnu alvarleikastigi til að geta talist pyndingar, en þar er ekki að finna nákvæmar viðmiðanir. Erna segir í rauninni aðeins stigsmun á pyndingum annarsvegar og ómannúðlegri meðferð. Hún sagði jafnframt að kyn, aldur og heilsa þess sem meðferðinni er beittur spilar inn í við mat í því hvort um pyndingar sé að ræða og að ósjaldan sé deilt um fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu hvort meðferð teljist pyndingar og stundum óljóst hvar skilin eru.
Samkvæmt skilgreiningu SÞ þurfa pyndingar að vera framkvæmdar af stjórnvöldum eða einhverjum sem kemur fram í nafni stjórnvalda. „Hins vegar getur sú staða komið upp að aðilar sem stjórnvöld hreinlega ráða ekki við pynda fólk. Við þær aðstæður gæti meðferðin flokkast sem pyndingar þó svo stjórnvöld hefðu komið þar hvergi nærri, því þau gátu ekki verndað borgara sína,“ segir Erna.
Erna bendir á að s.k. „water-boarding" aðferð sem líkir eftir drekkingu sé dæmi um pyndingaraðferð sem vestræn ríki bera við að falli ekki undir pyndingar samkvæmt samningi SÞ, þar sem lífi þess sem sætir meðferðinni sé ekki í hættu. Eftirlitsaðilar hafa hins vegar gert athugasemdir við þessar skilgreiningar.
Hún benti einnig á í erindi sínu að óheimilt sé að senda fólk til landa ef þau hafa rökstuddan ótta um að vera beitt pyndingum í því landi. Mannréttindadómstóllinn gerir miklar kröfur til sönnunar um að einstaklingur verði fórnarlamb pyndinga í því landi sem til stendur að endursenda hann. Hættan þarf að vera raunveruleg, einstaklingsbundin og fyrirsjáanleg. Þó getur einstaklingur sem tilheyrir tilteknum þjóðfélagshópi sem sætir pyndingum í tilteknu landi talist óttast raunverulegar og fyrirsjáanlegar pyndingar, þó svo þær beinist ekki eingöngu að honum sjálfum heldur hópi sem hann tilheyrir.
Pyndingar eru bannaðar með fortakslausum hætti í 1. málsgrein 68. greinar stjórnarskrárinnar eins og áður segir. Ákvæðið er að sögn Ernu efnislega samhljóða ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu sem leggur bann við pyndingum. Verndin fyrir endursendingu er því meiri samkvæmt íslenskum rétti en sú sem leiðir af flóttamannasamningnum, þar sem algjört bann ríkir gegn því að vísa einstaklingi til baka til lands þar sem hann mun sæta pyndingum samkvæmt íslenskum lögum, en á því banni eru mjög þröngar undantekningar í flóttamannasamningnum.
Erna hélt áfram og sagði það að hafa áður sætt pyndingum veitir einstaklingi ekki sjálfkrafa stöðu flóttamanns, heldur þarf óttinn við pyndingar að snúa að ótta við pyndingar í framtíðinni. Pyndingar í fortíðinni duga því ekki sem raunverulegur ótti við pyndingar í framtíð. Sá sem ber fyrir sig ótta við pyndingar ber sönnunarbyrðina af því. Stjórnvöld í landinu sem flúið er til þurfa hins vegar að leggja sitt af mörkum við að aðstoða einstaklinginn við sönnunarfærsluna.