Algengt er að flóttamönnum sem leita skjóls á Íslandi hafi verið hótað ofbeldi og pyntingum án þess að falla formlega undir þau skilyrði alþjóðalaga um pyntingar. Að mati Kristjáns Sturlusonar, framkvæmdastjóra Rauða krossins, stendur Ísland sig illa hvað varðar móttöku flóttamanna.
Lagadeild Háskólans í Reykjavík, Réttur lögmannsstofa og Rauði Kross Íslands efndu í dag til þverfaglegrar ráðstefnu um flóttamenn og pyndingar.
Kristján Sturluson sagði í erindi sínu að fjöldi flóttamanna í heiminum hefði haldist nokkuð stöðugur undanfarin ár. Skilgreining flóttamannasamningsins á flóttamannahugtakinu er mun þrengri en gengur og gerist í almennri umræðu, en hún nær til að mynda ekki til fólks sem er á flótta í eigin landi. Að sögn Kristjáns hefur fjöldi flóttamanna í þrengri merkingu verið á milli 13 og 16 milljónir á heimsvísu, á meðan flóttamenn í eigin landi eru nú nær þrjátíu milljónum.
Í fyrirlestri sínum birti Kristján tilvitnun í tyrkneskan kennara sem nú dvelur í flóttamannabúðum. Hann lýsti ástandi sínu og annarra í flóttamannabúðunum þannig að þau væru á lífi en lifðu ekki.
Hann sagði jafnframt að skilyrði pyntinga í alþjóðalögum væru miklu þrengri en gengur og gerist í daglegri umræðu. Alvarlegar afleiðingar pyntinga, sem væru eitt skilyrði þess að einstaklingur teldist vera fórnarlamb pyntinga, kæmu oft ekki fram fyrr en löngu eftir að þær hefðu átt sér stað. Mikill fjöldi flóttamanna yrði fyrir pyntingum einhvern tíma á flótta sínum.
Kristján sagði algengt að flóttamenn leiti hér skjóls sem hefði verið hótað ofbeldi og pyndingum án þess að uppfylla þau skilyrði sem miðað er við. Einn og sami einstaklingurinn gæti til að mynda hafa orðið fyrir pyntingum á öllum stigum flóttans, í upprunaríki, í flóttamannabúðum, á flótta til öruggs lands og í því landi sem hann leitar hælis í. Kristján sagði þó að flesti hefðu orðið fyrir pyntingum í upprunaríki sínu.
Kristján segir marga sem flýja heimaríki sitt þurfa að afla sér falsaðra skilríkja. Slíkt hefði þær afleiðingar að hælisleitendum væri iðulega stungið í fangelsi, sem væri mjög til þess fallið að brjóta niður traust einstaklingsins á kerfinu í hælislandinu. Traust væri hins vegar forsenda þess að fólk gæti unnið sig út úr þeim hryllingi sem pyndingar hefðu í för með sér, segir Kristján. Evrópuríki leggðu ennfremur stund á að vísa hælisleitendum til baka utan landamæra sinna, þannig að þeir kæmust aldrei inn í hælislandið. Slíkt sagði Kristján hljóta að brjóta á reglum um bann við endursendingu flóttamanna, og þyrfti að koma í veg fyrir.
Vegna þeirra ströngu skilyrða sem Evrópuríki setja til að hleypa fólki inn í sitt land, eins og vegabréfsáritanir, hafi það í för með sér að flóttafólk þurfi að treysta á vafasama aðila sem taka að sér að smygla fólki yfir landamæri. Kristján sagði slíka smyglara bera litla umhyggju í garð þeirra sem þeir væru að flytja og að slíkir flutningar væru engum til góða. Að sögn Kristjáns tekur flóttinn oft einn til þrjá mánuði, fólkið sætir harðræði og ofbeldi. Kristján vakti jafnframt athygli á að fólk flýr yfirleitt ekki heimaland sitt nema eiga ekki annarra kosta völ. Því væri nauðsynlegt að búa betur að þeim sem leita hér hælis.
Kristján sagði fleiri ríki þurfa að taka við flóttamönnum, og þau ríki sem tækju á móti þeim þyrftu að taka við fleirum. Ísland stendur sig illa í þessum efnum að mati Kristjáns. Í fyrra tók Ísland á móti 10 flóttamönum sem er lægsta hlutfall á Norðurlöndum miðað við höfðatölu. Ef við ætluðum að vera sambærileg við Noreg, sem dæmi, ættum við að taka á móti 80 flóttamönnum á ári.
Kristján sagði skilríkjafölsun jafnframt áhyggjuefni. Margir flóttamenn sem koma til Evrópu fara beint í fangelsi því þeir komast inn í landið á fölsuðum skilríkjum. Þetta væri venjan á Íslandi. Flóttamaður sem hefur sætt ofbeldi í heimalandi upplifir gífurleg vonbrigði þegar hann er dæmdur til fangelsisvistar þegar hann kemur í „öruggt ríki“. Slíkt skapar vantraust milli hælisleitanda og stjórnvalda.
Kristján sagði ennfremur að langur málsmeðferðartími hælisumsókna værir mikið áhyggjuefni og sagðist þekka mörg dæmi þess að löng málsmeðferð leiki hælisleitendur grátt. Mál taka allt að 2-3 ár og enda oftar en ekki með því að einstaklingum er vísað úr landi. Einstaklingar sem í upphafi virka frískir koðna niður og lenda í depurð og þunglyndi, sem gerir þeim erfiðara um vik að fóta sig ef þeim er veitt hæli, en líka ef þeim er vísað út. Kristján sagði nauðsynlegt að stytta þennan málsmeðferðartíma.