Guðni Páll Viktorsson sem rær á kajak umhverfis Íslands kláraði um 62 kílómetra af leiðinni í dag. Allt gekk að óskum og engin vandræði komu upp nema þá helst að hann mátti berjast við mótvind og þungan straum.
Þegar mbl.is spjallaði við Guðna var hann á Selfossi hjá afa sínum og ömmu að borða. „Ég var á sjó í tíu tíma, þetta var langur dagur en það var gott veður og maður verður að nota svoleiðis daga. Ég reyndi því að komast eins langt og ég gat,“ segir Guðni.
Dýrin misánægð
Guðni Páll fer ekki varhluta af dýralífi á ferðum sínum. Dýrin eru þó misánægð að sjá hann. Fuglarnir eru lítt ánægðir með veru hans á sjónum en selirnir fylgja honum forvitnir. „Við höfum ýmislegt um að ræða. Maður verður að sækja sér félagsskap þannig,“ segir Guðni Páll um selina. „Það var mikið af sel í dag og þeir elta mann alltaf í svolítinn tíma enda forvitnar skepnur.“ segir Guðni Páll.
Ánægjulegt að sjá hraunið
Hann heldur af stað að nýju í fyrramálið og stefnir að því að komast til Þorlákshafnar á morgun. „Ég var nokkuð nálægt landi í dag. Kannski um kílómeter frá því í mesta lagi. Það var mjög gott í sjó og lítið sem ekkert brim. Núna eru þessir sandar búnir og það var ánægjulegt að sjá hraunið. Framundan er meira af víkum þar sem maður getur fengið skjól fyrir sjógangi og veðri,“ segir Guðni.
Hann reynir að stoppa einu sinni til tvisvar á dag, þó ekki hafi alltaf gefist tími til þess. „Ég hef verið mjög óheppinn með sjólag á suðurströndinni og stundum þurft að vera í bátnum allan daginn,“ segir Guðni Páll.
Guðni Páll safnar fé fyrir verkefnið Lífróður Samhjálpar og hér er hægt er að leggja söfnuninni lið.