Lakar starfsaðstæður einkum vegna álags

Frá Landspítala.
Frá Landspítala. Eggert Jóhannesson

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, tekur undir áhyggjur Más Kristjánssonar, yfirlæknis á lyflækningasviði Landspítalans, um skort á unglæknum. Þorbjörn segir ástæðuna einna helst gríðarlega mikið álag á sjúkrahúsinu.

Unglæknar á lyflækningasviði sögðu upp störfum í vor vegna lakra starfsaðstæðna. Þegar þeir drógu uppsagnirnar til baka var það gegn loforði um að þær yrðu bættar. 

„Ég hef miklar áhyggjur af því að við erum með of fáa unglækna á sviðinu. Þeir eru lykilstarfsmenn þegar kemur að því að taka á móti fólki og meta það í byrjun og síðan vinna þeir með sérfræðilæknum,“ sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir á lyflækningasviði Landspítalans í samtali við mbl.is í dag.

Mikil óánægja

Þorbjörn segir álagið vegi þyngst. „Það er ýmislegt, en einna helst er það gífurlega mikið álag. Það er augljóst að á meðan spítalanum tekst ekki að laða til sín unga lækna að þá leysist það ekki,“ segir Þorbjörn og bætir við að þá verði ástandið bara verra. 

„Í lyflækningum geta menn tekið fyrri hlutann af sinni menntun hérlendis, en ef aðstæðurnar og álagið er þannig að mönnum finnst ekki að fýsilegt að þá munu menn taka allan hluta námsins erlendis og það er ekki æskilegt fyrir spítalann í sjálfu sér,“ segir Þorbjörn.

Hann segir ástandið hafa verið svona í nokkur ár. Fyrir tveimur árum hafi ekki verið nægilega margir unglæknar til að manna stöður og þá hafi sérfræðilæknar þurft að taka hluta af vöktum sem almennir læknar ættu að taka venjulega. 

„Þetta snýst um það að starfsumhverfið og launin séu þess eðlis að mönnum finnist það þess virði að vinna þarna,“ segir Þorbjörn. Þá sé ekki síður mikilvægt að það sem sjúkrahúsið gefi fyrirheit um standist þannig að menn geti treyst því sem samið hefur verið um. 

„Það hefur verið misbrestur á því í gegnum tíðina sem hefur valdið mikilli óánægju,“ segir Þorbjörn. 

Frétt mbl.is: Uggandi yfir skorti á unglæknum

Þorbjörn Jónsson er formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson er formaður Læknafélags Íslands. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert