Færeyingar munu ekki hvika frá áformum um að veiða upp í stóraukinn síldarkvóta, þrátt fyrir hótanir Evrópusambandsins um refsiaðgerðir verði af veiðunum.
Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, staðfestir þetta í samtali í Morgunblaðinu í dag og boðar að lokið verði við að úthluta síldarkvótanum öðrum hvorum megin við helgi. Þá rifjar ráðherrann upp að síldin sé orðið í færeyskri landhelgi nánast allt árið. Þar sé á ferð færeysk síld, ekki norsk eða íslensk.
„Við vitum að sambandið er að undirbúa viðbrögð, eins og til dæmis refsiaðgerðir gegn okkur, en við vitum á þessu stigi ekki meira um hvað það ætlar sér,“ segir Vestergaard um hótanir ESB.