„Ég hef miklar áhyggjur af því að við erum með of fáa unglækna á sviðinu. Þeir eru lykilstarfsmenn þegar kemur að því að taka á móti fólki og meta það í byrjun og síðan vinna þeir með sérfræðilæknum,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á lyflækningasviði Landspítalans.
Vinnuhópur á lyflækningasviði skoðaði nýverið hvernig unnt væri að bregðast við miklu álagi, skorti á unglæknum og ófullægjandi vinnuaðstöðu. Í kjölfarið var bréf sent til stjórnenda sviðsins til að hvetja til umræðu um ástandið. „Ástæðan fyrir því að við erum uggandi yfir þessu er að þrátt fyrir að við höfum auglýst eftir unglæknum til að starfa á lyflækningasviði þá hefur lítil ásókn verið í störfin hérna. Það sem ungu læknarnir bera fyrir sig er að álagið sé svo mikið og vinnuaðstaðan slæm að þeir vilji ekki ráða sig hingað,“ segir Már.
Vandamálið lúti því ekki að fjárskorti heldur einfaldlega að því að læknar leiti annað eftir atvinnu. „Hvað unglæknana varðar þá erum við í vondri stöðu vegna þess að við getum í sjálfu sér ráðið miklu fleiri en þeir eru ekki að koma til starfa. Þeim finnst vera svo mikið vinnuálag að þeir kjósa frekar að vinna annars staðar en hjá okkur. Dæmigert „catch 22“,“ segir Már. „Ef fólkið kæmi að vinna hjá okkur væri álagið minna en fólkið kemur ekki til vinnu þannig að það er erfiðara að skipuleggja starfið.“
Már segist vera afar áhyggjufullur þar sem unglæknar gegni lykilstöðu á spítalanum. „Ef að unglæknar eru ekki til staðar þá verðum við að grípa til þess að breyta skipulagi starfa sérfræðilækna og það er mikið álag á þeim líka vegna þess að göngudeildarstarfsemi sviðsins hefur aukist mjög mikið. Ef við þurfum að láta sérfræðilæknana vera í almennum móttökum þá verða þeir ekkert sérstaklega hamingjusamir. Þetta er ekki góð staða.“
Þá hefur legurúmunum á deildinni fækkað, líkt og á spítalanum öllum, en á sama tíma eldist þjóðin og sjúklingum með flókin læknisfræðileg vandamál fjölgi með tilheyrandi álagi. „Í sumum sérfræðigreinum er sérfræðilæknum að fækka og eins og málin standa í dag þá erum við með of fátt fólk til þess að sinna öllum þeim verkefnum sem við þurfum að sinna hér á deildinni. Það er náttúrulega mjög erfitt að fara inn í sumarið með sumarorlofið og vitandi það að við erum með öll þessi verkefni,“ segir Már.