Blóðug handrukkun í Seljahverfi

„Aðkoman var skelfileg. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt nema kannski í bíómyndum,“ segir íbúi í Seljahverfi í Breiðholti þar sem a.m.k. þrír karlmenn gengu í skrokk á manni fyrir allra augum úti á götu nú síðdegis. Íbúar telja að um handrukkun hafi verið að ræða enda var hafnaboltakylfu m.a. beitt.

Sjónarvottur segir að íbúar við Ystasel í Breiðholti séu slegnir óhug eftir árásina sem mun hafa verið mjög hrottafengin. Maðurinn sem ráðist var á var fluttur alblóðugur í andlitinu á sjúkrahús.

„Þetta var bara úti á götu fyrir allra augum. Það stóðu allir úti á svölum í sjokki.“ Hann segir blóðslettur í götunni og á nærliggjandi bíl eftir árásina en hafnaboltakylfa sem mennirnir virðast hafa notað var skilin eftir á vettvangi.

Árásarmennirnir komust hins vegar undan á silfurlituðum Landcruiser-jeppa áður en lögregla kom á vettvang. Sjónarvottur segir að þeirra á meðal hafi verið landsþekktur handrukkari. Hann segir íbúa Seljahverfis ekki eiga að venjast svona löguðu.

„Ég bý í svo friðsælu hverfi, hér er mikið af eldra fólki en ég er búinn að búa hérna í þrjú ár og er með tvö lítil börn. Ég hef aldrei orðið vitni að svona áður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert