Stefnir á toppinn á þriðjudag

Ingólfur Geir Gissurarson
Ingólfur Geir Gissurarson

 Ingólfur Geir Gissurarson er kominn í aðrar búðir á leið sinni á toppinn á Everest. Á morgun er hvíldardagur og svo heldur hann áfram upp í 3. búðir  snemma á sunnudagsmorgun. Ef allt gengur að óskum er stefnt að því að vera á toppnum að morgni 21. maí.

Tímasetningar eru aðeins óvissar en miða má við hádegi að staðartíma sem reiknast á milli 6 og 7 að morgni að íslenskum tíma, segir vef hans en hægt er að fylgjast með ferðinni hér.

Aðrar búðir eru í um 6.500 metra hæð og hefur Ingólfur gist þar áður í sjö nætur í tveimur aðlögunarferðum upp eftir hlíðum Everest.  Aðrar búðir eru í Vesturdal og þar getur hitamismunur verið allt að 50 stig.

Þegar komið er upp í Vesturdal eftir að hafa farið í gegnum ísfallið um nóttina er sólin að koma upp.  Þegar sólin er komin hátt á loft verður allt að 30 stiga hiti og menn eru að stikna úr hita, segir á vef ferðarinnar.

„Þegar við vorum í annarri aðlögunarferðinni vorum við komnir úr nær öllum okkar fötum og vorum með tjaldið opið í báða enda til að fá smátrekk en vorum samt að stikna úr hita.  Klukkutíma seinna hvarf sólin og við vorum komnir í þrjú lög af fötum og ofan í svefnpoka.  Þegar sólin hverfur um kl. 17.30 er venjulega komið 10 til 20 stiga frost og þá er gott að vera búinn að koma sér í dúnfatnaðinn.

Veðurandstæður í Vesturdal eru miklar og þar er oft verið að skipta um föt.  Fækka fötum og bæta við fötum.  Þegar haustlægðirnar koma til Íslands finnur fólk oft fyrir breytingum á loftþrýstingi þegar loftþrýstingur verður 960 til 970 mb.  Í öðrum búðum er loftþrýstingur undir 450 mb. Að vera í öðrum búðum og ofar er mikið álag á líkama þó að það sé verið að reyna að hvílast,“ segir enn fremur á vef leiðangursins á Everest.

Mynd úr öðrum búðum
Mynd úr öðrum búðum Ljósmynd Guðmundur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert