Íslendingarnir tveir sem stefna á topp hæsta fjalls heims í næstu viku taka því rólega í dag enda slæm veðurspá. Í dag bárust einnig fregir af því að fyrsta konan frá Sádi-Arabíu, Raha Moharrak, 25 ára, hafi náð á toppinn. Ekki nóg með það heldur er hún yngsti arabinn til þess að ná á topp Everest.
Á vef ferðalags Ingólfs Geirs Gissurarsonar kemur fram að hópurinn sem hann er í hvíli í dag og hvíldardagar séu ekki eins skemmtilegir og nafnið bendi til.
Fara í þriðju búðir á morgun
„Við vöknum í ískulda og rétt nefið kemur upp úr hrímuðum svefnpokanum. Beðið er eftir að sólin komi upp til að hægt sé að fara aðeins á stjá. Deginum er síðan eytt með því að nærast vel, lesa og reyna að skemmta hvor öðrum. Í öðrum búðum er loftþrýstingur undir 450 mb. Að vera í öðrum búðum og ofar er mikið álag á líkama þó að það sé verið að reyna að hvílast og lesturinn fer fram með hanska á höndunum.“
Á morgun sunnudag (eða aðfararnótt sunnudags) er haldið upp í 3. búðir. Gist þar 1 nótt og áfram upp í Suðurskarð þar sem reynt er að hvílast fram undir miðnætti þegar lagt er af stað á toppinn sjálfan, segir ennfremur á síðunni.
Einn lést á leiðinni niður
Leifur Örn Svavarsson skrifaði á vef sinn í gær að þaðan sem hann hvílir sig nú sé fjögurra daga gangur á toppinn og hann muni sitja um gott veður.
„Heyrði í Einari Sveinbjörnssyni og hann ráðleggur að bíða í nokkra daga, því enn sé mjög hvass háfjallavindur í efstu lögunum. Hér eru menn annars fullir eftirvæntingar og fyrir marga er erfitt að bíða.
Fyrsta uppgangan hér að norðanverðu var í fyrradag og fór hún ekki vel. Enn er atburðarásin ekki komin á hreint en orðrómurinn segir að sherparnir sem fóru upp hafi tekið langan tíma á fjallinu. Verið 2 nætur í 7.700 metrum að bíða eftir betri aðstæðum sem reynir mikið á líkamann.
Þeir eiga síðan að hafa náð toppnum 15. maí en aðstæður hafi verið erfiðar og þeir hafi verið mjög lengi á ferðinni.
Á niðurleiðinni lést einn sherpinn í eða við efstu búðir í 8.300 metrum en hópurinn er enn ekki kominn niður af fjallinu þannig að nákvæmar fréttir eru ekki til staðar en þessar fregnir eru vissulega sorglegar.
Sherparnir eru gjarnan barnmargir og konurnar heimavinnandi. Skyldutryggingarnar þeirra eru 4000 evrur sem jafnvel í Kathmandu duga ekki lengi fyrir framfærslu á fjölskyldu. Þrátt fyrir þennan harmleik streyma fjallgöngumenn upp fjallið. Einkum virðist Kínverjunum annt um að toppa snemma. Í dag lögðu 13 manns af stað úr efstu búðum og á morgun mun enn stærri hópur reyna við tindinn.
Ég ætla að sitja rólegur og fylgjast með veðurspánni. Ég sé alveg fyrir mér á næstunni að breyta um mataræði, snarminnka neyslu á jakuxakjöti og drykkju á mjólkurtei en það mun ekki hafa áhrif á val á toppadeginum,“ skrifar Leifur Örn á vef sinn í gær.
Það að sannfæra fjölskylduna ekki minna afrek en fjallgangan
Moharrak er meðal annars í för með fyrsta Katar-búanum sem nær á topp Everest og fyrsta Palestínumanninum sem nær þeim áfanga. Hópurinn reynir með leiðangrinum að safna einni milljón Bandaríkjadala, 123 milljónum króna, fyrir menntaverkefni í Nepal.
Moharrak býr í Dubaí en er frá Mekka. Á vef BBC kemur fram að þar sem hún komi frá landi þar sem konur njóta lítilla réttinda miðað við karlmenn þá hafi hún þurft að brjóta margar brýr að baki sér áður en hún hóf ferðalagið.
Hún segir að það að sannfæra fjölskylduna um að hún mætti fara í ferðalagið væri ekki minna afrek en að klífa Everest.